Tindastóll tók á móti nýliðum KR í fyrstu umferð Bónus-deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Vel var mætt í Síkið að venju og heimamenn spenntir að sjá Tindastólsliðið undir stjórn Benedikts Guðmundssonar.
Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað en augljós haustbragur var á leik liðanna og heimamenn áttu í erfiðleikum með að finna skotin sín. Gestirnir voru skrefi á undan og um miðjan annan leikhluta slökktu þeir nánast á heimamönnum og náðu 15-2 kafla sem skilaði þeim 28-43 stöðu í hálfleik.
Það var allt annað Tindastólslið sem kom til leiks í þriðja leikhluta. Vörnin varð ákafari og það skilaði Stólum betri skotum sem þeir nýttu vel. Um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 2 stig og sveiflan með heimamönnum. Tóti túrbó jafnaði metin í 62-62 rétt fyrir lok þriðja leikhluta en Arnar Björnsson átti einn ás uppi í vinstri erminni og setti ótrúlegan flautuþrist frá miðju, 65-62 fyrir lokaátökin. Tindastóll vann þriðja leikhlutann með 18 stigum en náðu ekki að fylgja því eftir í þeim fjórða. Gestirnir sigu framúr með agaðri og hraðri spilamennsku og unnu að lokum nokkuð þægilegan 85-94 sigur.
Þórir Guðmundur átti fínan leik fyrir gestina og skilaði þrennu, 14 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Stigahæstur gestanna var Linards með 30 stig og reif einnig niður 11 fráköst. Í slöku liði heimamanna var Basile bestur en athugunarvert var hversu lítið framlag liðið fékk af bekknum, einungis 7 stig.
Myndasafn ( Hjalti Árna )
Tindastóll á næst úti leik gegn ÍR í Breiðholtinu á meðan KR fær Stjörnuna í heimsókn, báðir leikirnir fara fram 10. Október klukkan 19:15