KR tók efsta sæti Dominos deildar kvenna á ný með sigri á Haukum 69-61. Haukar voru sterkari framan af en KR tók forystuna rétt fyrir hálfleik og lét hana ekki af hendi eftir það.
Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Írska undrið
Þvílíkur happafengur sem Orla O’Reilly var fyrir KR. Hún hleypur völlinn frábærlega, spilar vel á báðum endum og er óárennileg undir körfunni. Ekki margir leikmenn eins og hún í deildinni en hún smellpassar í spilamennskuna. Svo er hún frá Írlandi sem er í raun ótrúleg staðreynd.
Óskynsemi Hauka
Haukar fengu tækifæri til þess að koma sér inní leikinn en liðið tók margar vondar ákvarðanir og tapaði 18 boltum í leiknum. Langt mest af stigum Hauka í seinni hálfleik kom í gegnum Lele Hardy en liðinu vantaði nokkuð framlag á ögurstundu frá fleiri leikmönnum.
Sannfærandi sigur KR
Þrátt fyrir að Haukar hafi verið yfir meirihluta fyrri hálfleiks þá hafði maður alltaf í tilfinningunni að KR ætti inni áhlaup og komast yfir. Það gerðist í lok fyrri hálfleiks og eftir það ar sigur KR aldrei í hættu. Spilamennska þeirra var ekki fullkomin en sigurinn að lokum sannfærandi.
Hvert er þak KR-inga?
Ekkert lið hefur komið jafn mikið á óvart og lið KR. Liðið situr í fyrsta sæti eftir leik dagsins en var spáð neðsta sæti deildarinnar, en hversu lengi getur þetta haldið áfram? Það eru engin teikn á lofti um að liðið sé á einhvern hátt að gefa eftir. Það virðist vera gott jafnvægi á liðinu inní teig og fyrir utan. Það er góð blanda af góðum erlendum leikmönnum, reynslumiklum KRingum og efnilegum leikmönnum. Það skildi engin afskrifa KR og ættu allir að vera löngu farin að taka KR alvarlega.