spot_img
HomeFréttirKR Reykjavíkurmeistari 2011

KR Reykjavíkurmeistari 2011

 
Íslands- og bikarmeistarar KR bættu í kvöld enn einum titlinum í safnið þegar þeir urðu Reykjavíkurmeistarar með 106-96 sigri á Fjölni í skemmtilegum leik. Á tíma virtust Vesturbæingar ætla að stinga af en Fjölnismenn gerðu verðuga atlögu að titlinum en KR hélt út og fagnaði sigri.
Úrslitaviðureignin hófst með látum þar sem Nathan Walkup tróð yfir heilt KR lið. Fín innstimplun hjá kappanum og fyrsti leikhluti var fjörugur. David Tariu var ekki til setunnar boðið og tróð með tilþrifum fyrir KR sem leiddi 25-30 að loknum fyrsta fjórðung. Röndóttir voru svo ívið sterkari í öðrum leikhluta og leiddu 38-51 í leikhléi.
 
Nathan Walkup fékk sína fjórðu villu í liði Fjölnis snemma í þriðja leikhluta og sást ekkert eftir það. Gulir létu þó ekki deigan síga og hægt og bítandi unnu þeir niður mun KR og staðan 71-75 KR í vil eftir þriðja leikhluta þar sem Ágúst Angantýsson lokaði fjórðungnum með snyrtilegum þrist fyrir Íslands- og bikarmeistarana.
 
Í fjórða leikhluta náðu Fjölnismenn nokkrum sinnum að komast yfir en KR náði á ný undirtökunum þegar David Tariu fékk fjögur vítaskot eftir að tæknivíti var dæmt á Fjölnismenn. KR kláraði dæmið 106-96 og var það sigur liðsheildarinnar. Fjölnismenn sýndu lipra takta í kvöld og þá er vert að minnast á Björgvin Ríkharðsson sem átti skemmtilegar rispur fyrir gula og tróð m.a. í leiknum, ekki slæmt svona á fyrstu skrefunum í meistaraflokki.
 
Til hamingju KR!
 
Mynd/ [email protected] Skarphéðinn Ingason og Ólafur Ægisson lyfta Reykjavíkurmeistaratitlinum í Seljaskóla í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -