Keflavík tók á móti KR í þriðju umferð Domino’s deildar karla í kvöld. Heimamenn ætluðu sér að ná í sinn fyrsta sigur í deildinni og var allt að ganga upp fram að fjórða leikhluta. Þá tóku KR-ingarnir, með Helga Magnússon (27 stig) þar fremstan, heldur betur við sér og unnu leikhlutann 19-33. Gestirnir unnu að lokum frábæran sigur, 83-85, og Keflavík því enn án sigurs.
Í upphafi leiks var nokkuð jafnræði með liðunum og skiptust þau á að skora. Eftir tveggja mínútna leik var staðan 4-5 fyrir KR og um miðjan leikhlutann var staðan 14-13 fyrir Keflavík og einkenndust fyrstu mínúturnar af mikilli baráttu. KR-ingarnir voru að spila mjög vel saman þar sem boltinn gekk vel á milli manna og endaði oft með opnu skoti í kringum körfuna. Bræðurnir Helgi og Finnur Magnússynir voru að að spila sérstakleg vel saman og eiga þeir eftir að stríða mörgum liðum með samspili sínu. Hjá Keflavík voru Darrel Lewis og Michael Craion að spila mjög vel og voru að spila oft mjög vel saman á tíma. Craion var svakalega sterkur undir körfunni og var að skila góðum körfum fyrir heimamenn. Fyrir utan að hafa lent undir á annarri mínútu leiksins, 4-5, þá var Keflavík með forystuna síðustu átta mínútur leikhlutans þó hún hafi ekki verið mikil. Þegar flautað var til leikhlés var Keflavík með fjögurra stiga forystu 28-24 og allt stefndi í frábæran leik. Hjá Keflavík var Craion kominn með 12 stig og Lewis 8 en hjá KR var það Finnur sem var kominn með 10 stig og Helgi 7.
Keflvíkingar byrja annan leikhluta mjög vel með mikilli baráttu. Vörn heimamanna var frábær á tímum og gerðu KR-ingum erfitt fyrir að finna körfuna. Það tók gestina fimm mínútur þangað til að þeir náðu að skora sína fyrstu körfu utan af velli og minnkuðu muninn í 37-27. Lewis var að spila frábærlega í leikhlutanum og eftir að hafa tekið enn eitt sóknarfrákastið lagði hann boltann auðveldlega ofan í og kom Keflavík í 41-28. Gestirnir áttu frekar erfitt uppdráttar framan af í leiknum og var ekkert að detta ofan í körfuna hjá þeim á meðan flest virtist vera að ganga upp hjá Keflavík. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 48-35 og stemningin algjörlega Keflavíkur megin. Lewis og Craion voru að spila frábærlega þar sem þeir voru báðir komnir með 16 stig og virtist KR ekkert ráða við þá. Hinum megin var Finnur Magnússon kominn með 12 stig og Helgi og Danero Tomas með 7 stig hvor.
Í þriðja leikhluta halda Keflavík áfram þar sem frá var horfið í öðrum leikhluta. Craion hélt áfram að skora af vild þegar hann fékk boltann undir körfunni og þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru heimamenn komnir með 17 stiga forystu, 57-40. KR-ingarnir áttu enn í vandræðum með að finna körfuna á meðan heimamenn voru að spila frábæran bolta. Þeir voru mikið í að sækja villur á gesti sína og komust á vítalínuna hvað eftir annað. Staðan var 64-52 fyrir síðasta leikhlutann og þurftu KR-ingarnir að ná að stoppa heimamennina ef þeir ætluðu að ná fram sigri í þessum leik. Hjá Keflavík var Craion að spila frábærlega og var kominn með 23 stig og Lewis var þar ekkert síðri og var kominn með 20 stig. Finnur var kominn með 12 stig fyrir KR og Helgi 10 stig.
KR ætlaði sér greinilega ekki að láta fara illa með sig og héldu á 12-0 “run” með risa þrist frá Helga sem jafnar leikinn eftir þriggja mínútna leik, 64-64, og á “nóinu” er þetta orðið að alvöru leik. Á þessum tíma er stemninginn algjörlega KR megin sem byrjaði með frábærum leik frá Kristófer Acox. Leikurinn var algjörlega í járnum eftir þetta áhlaup KR. Þegar um fjórar mínútur eru eftir setur Valur Orri Valsson risa þrist fyrir Keflavík og kemur þeim fimm stigum yfir, 75-70. Með því að setja fjögur stig í röð komast Keflavík í 81-74 þegar aðeins 1:30 eru eftir af leiknum. En þá tekur Helgi til sinna ráða og á fimm sekúndum setur tvo þrista og jafnar leikinn, 81-81, þegar rétt undir mínúta er eftir af leiknum.
Keflavík halda síðan í sókn eftir þessar bombur en missa boltann og gestirnir halda í sókn þar sem þeir komast yfir í fyrsta skipti síðan á annarri mínútu leiksins, 81-82, eftir að Finnur setur niður opið skot utan af velli. Í næstu sókn heimamanna fer Lewis á línuna og kemur Keflavík aftur yfir, 83-82. Þegar 19 sekúndur eru eftir af leiknum er brotið á Brynjari Björnssyni og þakkar hann pent fyrir sig og setur öll þrjú vítin, 83-85. Keflavík halda því í sókn þar sem þeir geta átt síðasta skot leiksins en þeir fara illa að ráði sínu og stelur Bell boltanum eftir lélega sendingu frá Kevin Glitner. Heimamenn brjóta á honum en þá eru aðeins um þrjár sekúndur eftir af leiknum. Bell fer á línuna þar sem hann klikkar á fyrsta vítinu og viljandi á því seinna. Keflavíkingar ná frákastinu en ná ekki skoti áður en tíminn rennur út og KR fagnar sigri eftir frábæra endurkomu í leikhlutanum. Helgi spilaði frábærlega í leikhlutanum þar sem hann bar liðið á herðum sér á tíma og setti 17 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur.
Hjá Keflavík var Darrel Lewis að spila frábærlega og setti hann 30 stig/9 fráköst (6 í sókn)/5 stoðsendingar. Þá var Michael Craion einnig svakalegur og endaði hann með 27 stig/12 fráköst. Valur Orri Valsson átti einnig fína spretti og var með 10 stig/4 fráköst/6 stoðsendingar.
Eins og áður segir var Helgi Magnússon frábær í fjórða leikhluta og endaði leikinn með 27 stig (5/5 í þriggja)/5 fráköst/6 stoðsendingar. Bróðir hans, Finnur Magnússon, endaði með 16 stig, Brynjar Björnsson með 12 stig og Danero Tomas með 11 stig/5 fráköst/4 stoðsendingar/4 stolna.
Mynd/ Víkurfréttir – www.vf.is: Helgi Magnússon spilandi þjálfari KR til varnar gegn Magnúsi Þór Gunnarssyni.
Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir – [email protected]