spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR Kjöldregið í Vesturbænum

KR Kjöldregið í Vesturbænum

Topplið Njarðvíkur mætti í DHL Höllina í Vesturbænum í kvöld eftir frekar einkennilegt tap fyrir Haukum í síðustu umferð. KR hins vegar vann frábæran sigur í framlengingu á Sauðárkróki. Þetta var mikilvægur leikur fyrir bæði lið, Njarðvík vildi halda toppsætinu en KR-ingar hefðu laumað sér upp fyrir Keflvíkinga í 4ða sæti.

Það er skemmst frá því að segja að þessi leikur var akkúrat ekkert fyrir augað. Njarðvíkingar áttu ekki góðan leik en unnu samt auðveldan sigur, 55 – 71.

Elvar Friðriksson var stigahæstur Njarðvíkinga með 25 stig en hjá KR var eini maðurinn með lífsmarki Julian Boyd sem setti 29 stig og tók 11 fráköst.

 

Þáttaskil

Njarðvíkingar byrjuðu betur en KR tókst að koma sér aftur inn í leikinn og var staðan mjög jöfn í hálfleik 30 – 31. Það var hins vegar fljótlega í þriðja leikhluta þar sem sást í hvað stefndi. KR fóru í hverja stigalausu sóknina af fætur annarri en Njarðvíkingar héldu áfram að malla á meðalhita. Það reyndist nóg til þess að skilja liðin að í kvöld.

 

Kjarninn

Njarðvíkingar eru eins og staðan er í dag með sterkara lið. Á degi þar sem bæði liðin voru slök þá voru Njarðvíkingar allavega með með þá Elvar og Jeb Ivey sem geta búið til hluti upp úr litlu. Þrátt fyrir að KR hafi mikla reynslu í sínu liði þá stundum koma svona leikir þar sem liðið mætir ekki til leiks. Í dag feiluðu reynsluboltarnir “allir sem einn”. Jón Arnór með 4 stig, Pavel með 0 stig, Emil Barja með 2 og Helgi Magnússon með 5. Það dugar ekki, svo einfalt er það.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt í þessu tilfelli, í hinum hefðbundu tölfræðiþáttum var allt jafnt, stoðsendingar, fráköst, stolnir og tapaðir. Það sem skildi að var einfalt: Lið sem skora 55 stig í úrvalsdeild tapa. Það er bara þannig. KR skoraði 8 stig í fyrsta leikhluta og 25 stig í seinni hálfleik. Skotnýtingin skelfileg, eða 30% utan af velli og 14% fyrir utan þriggja stiga línuna. Njarðvíkingar voru talsvert betri, skoruðu úr 40% skota sinna og 37% úr þriggja stiga skotum. Suðurnesjamennirnir einfaldlega miklu skilvirkari í sínum aðgerðum. Önnur tölfræði í leiknum er nokkuð jöfn.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -