KR bar sigurorð af Breiðabliki, 85-113, þegar liðin áttust við í kvöld í Smáranum í 8. umferð Iceland Expressdeildarinnar. Með sigrinum eru meistararnir áfram í toppbaráttunni meðan Blikar róa lífróður í deild þeirra bestu.
KR-ingar náðu forystunni strax á upphafsmínútunum og héldu henni allan leikinn þrátt fyrir hetjulega baráttu Blika á köflum. Byrjunarlið heimamanna var skipað þeim Jonathan Schmidt, Daníel, Ágúst, Þorsteini og Hjalta. Hjá gestunum hófu leik Semaj Inge, Brynjar, Darri, Tommy og Fannar.
Vesturbæingar höfðu tögl og hagldir í fyrri hálfleik og dreifðu spilatímanum nokkuð vel á milli manna. Varnarleikur var ekki í hávegum hafður í Smáranum í kvöld eins og lokatölur bera glögglega með sér og gengu KR-ingar til búningsherbergja í hálfleik með þægilegt forskot, 47-60.
Blikar komu baráttuglaðir til leiks í 3. leikhluta og söxuðu á forskot gestanna. Kópavogsliðið setti átta stig í röð og breytti stöðunni úr 47-60 í 55-60. Skyndilega var komin spenna í leikinn og var þá Páli Kolbeinssyni, þjálfara KR, nóg boðið í bili og tók leikhlé.
Ekki hresstust þeir röndóttu við þrumuræðu þjálfarans. Blikar gengu á lagið og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt stig, 61-62, og um 5 mínútur eftir af þriðja leikhluta. Þá loksins vaknaði Vesturbæjarstórveldið af Þyrnirósarsvefni og náðu að breikka bilið í 63-71. Þá tók Hrafn Kristjánsson, þjálfari Blika, leikhlé og brýndi sína menn til dáða. Jafnræði var svo með liðunum og staðan 67-78 þegar blásið var til fjórða leikhluta.
Í síðasta fjórðung sprungu Blikar á limminu og meistararnir sýndu sínar bestu hliðar. Heimamenn keyrðu á of fáum leikmönnum meðan KR-ingar gátu ávallt haft ferska fætur á parketinu. Semaj Inge og Brynjar Björnsson áttu aukinheldur lipra spretti í sókninni og gátu skorað nánast að vild. Gestirnir slökuðu aldrei á í lokaleikhlutanum og keyrðu hraðupphlaup af miklum móð í bakið á þreytulegum Blikum og juku muninn jafnt og þétt. Lokatölur urðu 85-113 eins og fyrr segir.
Þrátt fyrir tapið var allt annað að sjá til Blikaliðsins frá síðasta heimaleik gegn Grindavík. Liðið var nánast eins og svart og hvítt sem var vel við hæfi gegn KR-ingum. Baráttan var til staðar og greinileg batamerki á leik liðsins. Nýi erlendi leikmaðurinn, Írinn Jonathan Schmidt, átti ágætisleik og hefur augljóslega góð áhrif á liðið og á bara eftir að styrkjast. Ágúst, Steini, Danni, Hjalti, voru mjög góðir í kvöld og gáfu sig í verkefnið. Þá lék Gylfi einn sinn besta leik með Kópavogsliðinu. Rúnar og Arnar voru einnig sprækir.
Hjá gestunum drógu Semaj Inge og Brynjar vagninn í sókninni auk Darra. Þá var Fannar sterkur að vanda. Í ljósi annarra úrslita kvöldsins eru KR-ingar komnir á toppinn ásamt Njarðvík og Keflavík og ljóst að deildin verður gríðarlega jöfn og spennandi í vetur.
Texti: Gylfi Freyr Gröndal
Mynd/ Úr safni