23:09
{mosimage}
(Sola fékk veglega tolleringu í leikslok)
Fannar Ólafsson tróð boltanum af miklum krafti í Njarðvíkurkörfuna og gerði lokastigin í öðrum leik Njarðvíkur og KR í úrslitum Iceland Express deild karla í kvöld. KR vann góðan karaktersigur á Njarðvíkingum, 82-76 í DHL-Höllinni en Njarðvíkingar leiddu mesta allan leikinn. Staðan í einvíginu er því jöfn, 1-1. Magnaður lokasprettur heimamanna skóp sigurinn en þeir voru aldrei langt undan Njarðvíkingum. KR-ingar höfðu ekki aðeins betur í baráttunni inni á vellinum en það var líka rafmögnuð stemmning hjá þeim á pöllunum.
Njarðvíkingar hófu leikinn vel með Jóhann Árna í broddi fylkingar og var staðan að loknum 1. leikhluta 26-30 Njarðvíkingum í vil. Varnir beggja liða tóku á sig þéttari mynd í 2. leikhluta og mikil barátta og menn ófeimnir við að fá dæmdar á sig villur. Jeremiah Sola gerði fjögur stig í röð og kom KR í 32-30 en Njarðvíkingar tóku frumkvæðið strax aftur af þeim og leiddu út leikhlutann. Friðrik Stefánsson fékk sína þriðju villu í Njarðvíkurliðinu þegar 3 mínútur voru til hálfleiks. Njarðvíkingar létu það ekki á sig fá og með þriggja stiga körfu frá Jeb Ivey komust þeir í 38-44 og mínúta til hálfleiks. Liðin gengu svo til búningsklefa í stöðunni 40-46 þar sem Jóhann Árni var kominn með 15 stig í liði Njarðvíkur en Tyson Patterson var með 11 hjá KR.
Pálmi Freyr Sigurgeirsson skreið úr hýði sínu í kvöld eftir dræma frammistöðu í fyrsta leik liðanna og opnaði hann þriðja leikhluta með tveimur þriggja stiga körfum í röð og jafnaði hann metin fyrir KR, 46-46. Þrátt fyrir góða byrjun KR voru Njarðvíkingar enn með frumkvæðið þar sem Friðrik Stefánsson barðist af miklum krafti á báðum endum vallarins. Fannar Ólafsson var einnig baráttuglaður hjá KR og skilaði fínni vinnu í kvöld. Njarðvíkingar höfðu yfir 58-62 að loknum þriðja leikhluta og þeir Igor Beljanski og Egill Jónasson báðir komnir með þrjár villur hjá Njarðvík sem og Fannar hjá KR.
Heimamenn gáfust aldrei upp og hvattir áfram af sérlega söngelskum áhorfendum hófu þeir að saxa á forskot Íslandsmeistaranna og tókst þeim að jafna metin þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Jeremiah Sola setti þá niður þriggja stiga körfu og jafnaði metin í 72-72 og Igor Beljanski búinn að fá sína fjórðu villu hjá Njarðvík. Ekki var lengi að bíða fimmtu villu Igors sem varð fyrir vikið frá að víkja og inn kom Egill Jónasson í hans stað. Heimamenn voru komnir á bragðið, vörn þeirra var þétt á lokasprettinum og KR-ingar yfirvegaðir undir lokin í sóknaraðgerðum sínum. Sola jók muninn í 74-72 og síðar kom önnur teigkarfa hjá KR og staðan 76-72 og KR-ingar búnir að gera 9 stig í röð án þess að Njarðvíkingar næðu að svara.
Brenton minnkaði muninn í 76-73 á vítalínunni en Fannar Ólafsson kom KR í 78-73 þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka. KR-ingar héldu út áhlaup Njarðvíkinga á lokasprettinum og höfðu að lokum 82-76 sigur eins og fyrr greinir þar sem Fannar Ólafsson tróð síðustu stigum leiksins í gegnum netið.
{mosimage}
Fögnuður heimamanna var gríðarlegur í lokin og fékk Jeremiah Sola tolleringu frá stuðningsmönnum. Sigur KR var þeim afar mikilvægur og staðan því jöfn 1-1 í einvíginu. Tap hjá KR í kvöld hefði þýtt að þeir hefðu farið 2-0 undir í Ljónagryfjuna á laugardag og þá væntanlega átt lítinn séns í einvígið.
Pálmi Freyr gerði 19 stig fyrir KR í kvöld og tók 6 fráköst en þeir Fannar Ólafsson og Tyson Patterson voru báðir með 16 stig hjá KR. Það var KR-ingum mikilvægt í kvöld að þeir Pálmi og Fannar næðu sér á strik í kvöld en í fyrsta leik liðanna voru þeir ekki að finna taktinn. Jóhann Árni Ólafsson hefur sýnt það áður og gerði það aftur í kvöld að hann er klárlega á meðal bestu leikmanna deildarinnar en Jóhann gerði 21 stig í kvöld og tók 4 fráköst. Jeb Ivey og Brenton Birmingham voru báðir með 16 stig í leiknum en Njarðvíkingar fengu aðeins 6 stig frá varamannabekknum sínum í kvöld.
Njarðvíkingar áttu í basli á vítalínunni og hittu þeir aðeins úr 21 af 33 vítaskotum sínum og þá voru mikilvæg víti á lokakafla leiksins sem voru ekki að detta niður.
Liðin mætast í þriðja úrslitaleiknum á laugardag og hefst leikurinn kl. 14:50 í Ljónagryfjunni.
{mosimage}