spot_img
HomeFréttirKR Íslandsmeistari: Trylltir sigurdansar í DHL-Höllinni

KR Íslandsmeistari: Trylltir sigurdansar í DHL-Höllinni

01:01

{mosimage}

 

(Fannar hefur þann stóra á loft í DHL-Höllinni í kvöld)

 

KR er Íslandsmeistari árið 2007 í Iceland Express deild karla eftir 3-1 sigur á Njarðvík í úrslitaeinvíginu. Njarðvíkingar tóku 1-0 forystu strax í upphafi rimmunnar en KR-ingar unnu þrjá leiki í röð og fögnuðu í kvöld Íslandsmeistaratitlinum í DHL-Höllinni eftir 83-81 sigur í framlengdum leik frammi fyrir troðfullu húsi.

 

Klukkustund fyrir leik var allt orðið fullt og þegar flautað var til leiks var hitinn nánast óbærilegur í DHL-Höllinni og stemmningin á pöllunum hreint út sagt frábær. Tyson Patterson var kjörinn besti maður úrslitakeppninnar og er hann vel að þeim titli kominn. Tyson var með 11 stig í kvöld og gaf 11 stoðsendingar.

 

Leikur kvöldsins hafði upp á allt að bjóða sem prýðir sögulegan körfuboltaleik, vel yfir 1300 áhorfendur, tvö sterkustu lið landsins í baráttu upp á líf og dauða að ógleymdum hádramatískum lokamínútum. Með mikilli áræðni náðu KR-ingar að knýja leikinn í framlengingu og þar sigldu þeir jafnt og þétt fram úr en Njarðvíkingar áttu lokaskot leiksins sem geigaði og þegar lokaflautan gall ætlaði allt um koll að keyra. Fyrsti Íslandsmeistaratitill KR síðan leiktíðina 1999-2000 er því staðreynd og eru Vesturbæingar vel að honum komnir.

 

Það kom í hlut Jóhanns Árna Ólafssonar að eiga síðasta skot leiksins í kvöld í framlengingunni. Njarðvíkingar náðu frákastinu þegar 6 sekúndur voru til leiksloka og staðan 83-81 KR í vil. Boltinn barst til Jóhanns sem brunaði upp völlinn, stökk upp við teig KR og freistaði þess að koma Njarðvík í tvíframlengdan leik en skotið hafnaði í hlið körfuspjaldsins og tíminn rann út og gólfið í DHL-Höllinni fylltist umsvifalaust af KR-ingum sem stigu laglegan sigurdans í leikslok.

 

Jóhann Árni Ólafsson kom funheitur til leiks í kvöld og gerði hann fimm fyrstu stig Njarðvíkinga og kom síðar sínum mönnum í 2-8 en Jeremiah Sola minnkaði muninn í 5-8 með þriggja stiga körfu. Njarðvíkingar höfðu undirtökin í fyrsta leikhluta en þar bar helst til tíðinda að landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson fékk dæmdar á sig tvær klaufavillur snemma í leikhlutanum og lék því ekki meira með KR í fyrri hálfleik. Staðan að loknum 1. leikhluta var 15-24 Njarðvík í vil og söngkeppnin í stúkunni í algleymingi.

 

Pálmi Freyr átti góðar rispur fyrir KR í fyrri hálfleik og minnkaði hann muninn í 27-33 í 2. leikhluta með teigskoti. Njarðvíkingar hleyptu KR þó ekki of nærri í fyrri hálfleik og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 39-44 Njarðvíkingum í vil. Njarðvíkingar voru mun grimmari en heimamenn í fráköstunum í fyrri hálfleik og þar lá helsti munurinn á liðunum. Igor Beljanski var atkvæðamestur hjá Njarðvík í fyrri hálfleik en hann gerði 15 stig og reyndist miðherjum KR oft og tíðum erfiður viðureignar.

 

{mosimage}

 

Rétt eins og í síðustu tveimur leikjum þessara liða fór að halla undan fæti hjá Njarðvíkingum í síðari hálfleik en það gerðist ekki fyrr en á endasprettinum. Fannar Ólafsson fékk strax sína þriðju villu í upphafi þriðja leikhluta og var áfram inni á vellinum og svipstundu síðar var fjórða villan komin, nokkuð ósanngjarnt en Fannar hélt engu að síður á bekkinn og óhætt að segja að hann hafi verið flautaður út úr leiknum. Blanda af ósanngjörnum villum og klaufalegum villum frá leikmanninum sjálfum.

 

Í þriðja leikhluta virtist hvert stig telja sem fimm stig, lítið var skorað en KR tókst aldrei að komast upp að hlið Njarðvíkinga og lauk leikhlutanum í stöðunni 53-59 Njarðvíkingum í vil.

 

Spennan var orðin óbærileg við upphaf fjórða leikhluta. Friðrik Stefánsson fékk snemma sína fjórðu villu og hélt á bekkinn fyrir vikið. Framan af fjórða leikhluta voru Njarðvíkingar yfir en með þriggja stiga körfu frá Brynjari Björnssyni tókst KR að minnka muninn í 63-66 og 3.40 mín. til leiksloka.

 

Jeremiah Sola minnkaði svo muninn í 68-69 er hann skoraði og fékk vítaskot að auki. Skömmu síðar fékk Friðrik Stefánsson sína fimmtu villu og varð frá að víkja í Njarðvíkurliðinu.

 

{mosimage}

 

Þegar 45 sekúndur voru til leiksloka sýndu Íslandsmeistarar KR hvers þeir eru megnugir. Staðan var 68-73 Njarðvík í vil eftir körfu frá Jóhanni Árna og allt benti til þess að liðin væru á leið sinni í oddaleik á miðvikudag.  Jeremiah Sola minnkaði muninn í 71-73 með þriggja stiga körfu og 32 sekúndur til leiksloka. Njarðvíkingar héldu í næstu sókn og léku niður skotklukkuna uns boltinn barst til Egils Jónassonar sem skaut flautuskoti frá þriggja stiga línunni og boltinn fór ofan í en dómarar leiksins töldu að skotklukkan hefði verið búin og karfan því dæmd af. Þegar hér er komið við sögu eru 10 sekúndur til leiksloka og KR á boltann.

 

Hver annar en Jeremiah Sola fær boltann í teignum, kemst í þokkalegt skot og setur boltann í netið og sekúnda til leiksloka og staðan 73-73, lygilega góðar 45 sekúndur hjá KR. Njarðvíkingar náðu ekki að nýta þessa einu sekúndu til sigur og því varð að framlengja.

 

Meðbyrinn var hjá KR, eftir svona endasprett eftir venjulegan leiktíma er ekki annað hægt en að koma vel stemmdur til framlengingarinnar. Pálmi Sigurgeirsson gerði fyrstu stig framlengingarinnar og Edmund Azemi kom KR svo fjórum stigum yfir, 77-73. Heimamenn höfðu góð tök á leiknum í framlengingunni og staðan 80-75 þegar þrjár mínútur voru eftir.

 

Edmund Azemi setti svo niður að margir héldu algjöra kjarnorkusprengju er hann kom KR í 83-75 með þriggja stiga körfu. Njarðvíkingar náðu þó að minnka muninn í niður í 83-81 og þá áttu KR-ingar sína síðustu sókn þegar um 30 sekúndur voru til leiksloka. KR tókst ekki að skora í sókninni, Njarðvíkingar náðu frákastinu, Jóhann fékk boltann, brunaði upp völlinn, tók lokaskot leiksins í KR teignum en boltinn hafnaði í hlið körfuspjaldsins og KR fagnaði Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega.

 

Vert er að taka fram að úrslitakeppnin í ár er einhver sú skemmtilegasta í langan tíma, KR fór ekki auðveldustu leiðina að titlinum, lögðu ÍR í fyrstu umferð, svo Snæfell í undanúrslitum eftir dramatískan oddaleik og svo fóru þeir 3-1 í gegnum Njarðvíkinga. Glæsilegur árangur Vesturbæinga og er þetta í fyrsta sinn í íslenskum körfubolta síðan leiktíðina 1982-1983 að bæði Íslands- og Bikarmeistaratitillinn lendir á höfðuðborgarsvæðinu en þá voru það Valsmenn sem hófu báða stórbikarana á loft.

 

Jeremiah Sola átti glimrandi dag í liði KR með 24 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Næstur honum kom Pálmi Sigurgeirsson með 17 stig og þá átti Edmund Azemi mikilvæga spretti fyrir KR undir lok leiksins. Hjá Njarðvík var Igor Beljanski að draga vagninn en hann gerði 29 stig fyrir Njarðvíkinga og tók 19 fráköst. Jóhann Árni Ólafsson fór vel af stað í kvöld og gerði 9 stig í fyrri hálfleik en lauk leik með 15 stig og 7 fráköst. Jóhann átti lokaskot Njarðvíkinga í kvöld og vonbrigðin hjá honum leyndu sér ekki þegar það geigaði en það eru einmitt þessi skot sem skila á milli feigs og ófeigs og skapa eftirminnilegar stundir í boltanum, á hvorn veginn sem fer.

 

Tölfræði leiksins

 

Gangur leiksins

2-8,9-15,15-24

20-28,32-35,39-44

41-46,46-53, 53-59

58-66, 63-66, 73-73

Framlenging:

75-73, 80-75,83-77,83-81

 

www.vf.is

 

{mosimage}

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -