Valur lagði KR í kvöld í Vesturbænum í lokaleik Subway deildar karla, 54-72. Þrátt fyrir tapið náði KR að smeygja sér inn í síðasta sæti úrslitakeppninnar á meðan að Valur endar í 3. sæti deildarinnar.
Fyrir leik
Fyrri leik liðanna í deildinni var frestað þangað til 7. febrúar síðastliðinn, en þar hafði Valur þriggja stiga sigur á KR í Origo Höllinni, 81-78.
Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Heimamenn í KR náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum og leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 16-13. Áhyggjuefni þó fyrir bæði lið í byrjun leiks. Fyrir KR þurfti fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson að yfirgefa leikinn að er virtist eftir að hafa fengið höfuðhögg. Fyrir Val var byrjunarliðsframherji þeirra Hjálmar Stefánsson kominn með þrjár villur eftir aðeins tæplega sex mínútna leik. Valur nær svo að snúa taflinu sér í vil undir lok fyrri hálfleiksins. Vinna annan leikhlutann með sex stigum og eru því komnir þremur yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 31-34.
Stigahæstur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Carl Lindbom með 10 stig á meðan að Callum Lawson var kominn með 12 stig fyrir Val.
Valsmenn láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins og koma forystu sinni mest í 9 stig á fyrstu mínútum þriðja leikhlutans. KR nær þó að spyrna við og halda gestunum innan seilingar fyrir þann fjórða, 48-53. Leikurinn helst svo í nokkru jafnvægi þar til um miðjan lokaleikhlutann, en þá bæta gestirnir við forystu sína og eru komnir tólf stigum yfir þegar fjórar mínútur eru eftir, 54-66. Undir lokin fer Valur svo vel að ráði sínu, halda leiknum á sínum hraða og sigla að lokum nokkuð öruggum sigur í höfn, 54-72.
Atkvæðamestir
Fyrir heimamenn var Carl Lindbom atkvæðamestur með 17 stig og 9 fráköst á meðan að fyrir gestina var það Kristófer Acox sem dró vagninn með 15 stigum og 9 fráköstum.
Hvað svo?
Við tekur úrslitakeppni hjá báðum liðum. Valur mætir Stjörnunni og KR deildarmeisturum Njarðvíkur í átta liða úrslitum sem rúlla af stað komandi þriðjudag 5. apríl.