Snæfell og KR áttust við í DHL-höllinni í kvöld en í húfi var efsta sæti D-riðils í Lengjubikarnum. Bæði lið höfðu tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar en með þriggja stiga sigri, eða meira, kæmu Hólmarar sér í efsta sætið á kostnað heimamanna í KR.
Lítið var skorað í byrjun enda sóknarleikur beggja liða býsna stirðbusalegur. KR-ingar reyndu mikið að nýta sér þá umfram sentimetra sem þeir höfðu á gestina án mikils árangurs og hjá gestunum var Pálmi sá eini sem kom auga á körfuna í byrjun. Ákvarðanataka beggja liða í sókninni var ekki vænleg til árangurs en þó höfðu KR-ingar komið 17 stigum á töfluna og gestirnir 18 eftir fyrsta leikhluta.
Sóknarleikur heimamanna skánaði nokkuð er á leið annan leikhluta. Flæðið í sóknarleiknum var betra og með þremur þristum á skömmum tíma komu KR-ingar sér lítið eitt fram úr Hólmurum. Sóknarleikur gestanna var aftur á móti samur við sig, mikið um ótímabær taktlaus skot og hefur Warren, erlendur leikstjórnandi þeirra, vafalaust átt betri daga. Heimamenn gengu til búningsherbergja með 11 stiga forskot, 40-29.
Vesturbæingar hófu síðari hálfleikinn af krafti og juku við forskotið. Hólmarar smelltu sér þá í svæðisvörn sem gekk svona upp og ofan. Það var ekki fyrr en Borgnesingurinn snjalli, Haffi Gunn, kom inn á um miðjan leikhlutann að eitthvað fór að ganga hjá Hólmurum. Þeir náðu ágætu áhlaupi, svæðisvörnin varð grimmari og Haffi smellti 9 stigum í sókninni á skömmum tíma. KR-ingum gekk illa að skora en þeir fengu þó nokkur stig af vítalínunni eftir frekar klaufaleg brot gestanna og KR-ingar leiddu með 7 stigum eftir þriðja, 63-56.
KR-ingar svöruðu fyrir sig í byrjun fjórða leikhluta og aftur voru það nokkrar þriggja stiga körfur sem komu heimamönnum í þægilega 10-15 stiga forystu. Gestirnir reyndu að hrista upp í leiknum með því að láta bresta á með pressu allan völlinn snemma í leikhlutanum en þrátt fyrir nokkra stolna bolta með þeirri aðferð fengu heimamenn á móti allnokkrar mjög ódýrar körfur. Sóknarleikur Hólmara var áfram býsna brokkgengur á meðan Brilli sýndi fína takta fyrir KR-inga á hinum endanum. Leikar fóru 91-78, nokkuð öruggur sigur að lokum.
Darri Hilmarsson átti flottan leik fyrir heimamenn með 21 stig og 9 fráköst. Það hlýtur að gleðja KR-inga mikið að fá hann heim aftur. Brynjar sýndi góða takta, einkum í fjórða leikhluta og endaði með 18 stig. Svo er það bara regla hjá Pavel Ermolinskij að gæla við tvöfalda þrennu, kappinn lauk leik með 15 stigum, 9 fráköstum og 9 stoðsendingum auk þess að stela 5 boltum!
Z. Warren skilaði 17 stigum fyrir Hólmara og Pálmi 14. Hafþór átti góða rispu og endaði með 12 stig ásamt Stefáni Torfasyni. Nonni Mæju spilaði lítið sem ekkert í leiknum af einhverjum ástæðum og Siggi Þorvalds náði sér ekki vel á strik og munar um minna fyrir Hólmara.
Umfjöllun: KV
Mynd úr safni/ Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá KR í kvöld.
Mynd úr safni/ Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá KR í kvöld.