spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR-ingar spöruðu kryddið

KR-ingar spöruðu kryddið

Valsmenn hafa ekki heillað marga það sem af er tímabili og eru enn stigalausir. Íslandsmeistararnir úr Vesturbænum hafa svo sem ekki verið mjög sannfærandi heldur en hafa þó halað inn fjórum stigum nú þegar af sex mögulegum. Valsmenn fengu tvo nýja erlenda leikmenn til liðs við sig fyrir leikinn og spennandi að sjá hvort þeir gætu orðið að liði og skapað sigur og fyrstu stig heimamanna í vetur.

Spádómskúlan: Kúlan er í svipuðum gír og þjálfari Grindvíkinga þessa dagana og íhugar starfslok. Verkefnið að spá fyrir um úrslit í þessari deild ætti samt ekki að vera mjög flókið þar sem ekkert hefur verið um óvænt úrslit. KR vinnur eins og vanalega, 86-76.

Byrjunarlið:

Valur: Simeonov, Bracey, Lamont, Raggi Nat, Saunders

KR: Jón, Boyd, Siggi, Emil, Bjössi

Gangur leiksins

Meistararnir tóku strax frumkvæðið í leiknum og virtust geta búið til þau skot sem þeir vildu án mikillar fyrirhafnar. Í stöðunni 15-24 höfðu flestir KR-inga sett í það minnsta einn þrist og Ágúst tók leikhlé, væntanlega til að hressa upp á varnarleikinn. Það bar ekki mikinn árangur en Ingi Þór hefur væntanlega líka minnt sína menn á varnarleikinn því Valsmenn áttu líka nokkuð auðvelt með að skora með Aleks og nýja manninn Kendall Lamont í broddi fylkingar. Mikið skorað og staðan 23-29 eftir einn.

KR-ingar byrjuðu að krafti í öðrum leikhluta og Orri og Dino bættust á lista þeirra sem fengu opið þriggja stiga skot og nýttu það. Gestirnir náðu 25-37 stiga forskoti og meistararnir gerðu sig líklega til að keyra yfir Valsmenn. Heimamenn hresstust þá sem betur fer lítið eitt og Lamont hélt áfram að valda usla í vörn gestanna. Munurinn var aðeins 6 stig, 48-54, í hálfleik og allt opið.

KR-ingar byrjuðu 3ja leikhluta vel rétt eins og annnan leikhluta og juku muninn aftur upp í 10-12 stig. Tilfinningin var sú að Hlíðarendapiltum væri sköpuð fyrirfram ákveðin örlög, líkt og Gunnari kallinum forðum daga, þess efnis að Valsmönnum myndi aldrei takast að minnka muninn niður fyrir 5-6 stig eða svo. Þeir reyndu að brjóta upp leikinn með svæðisvörn enda hentar það liðinu mjög vel með Lamont litla og Ragga risa inn á vellinum en allt kom fyrir ekki. Eftir þriðja leikhluta var munurinn 12 stig, 62-74.

Valsmenn gáfust ekki upp og börðust af krafti gegn örlögum sínum. Um miðjan fjórða leikhluta náðu þeir að minnka forskot KR-inga í 77-83 en örlögin tóku þá aftur í taumana. Við stjórnvöl örlaganna sat Jón Arnór og tók upp kryddbaukinn þegar á þurfti að halda og passaði upp á að halda sósunni nægilega kryddaðri. Jón hafði spilað mjög vel í leiknum en allra best í lokin svona til að tryggja sigurinn og lokatölur urðu 79-95 í tiltölulega öruggum og hóflega krydduðum sigri KR.

Menn leiksins

Jón Arnór og Emil Barja spiluðu mjög vel í leiknum. Jón var stigahæstur með 22 stig en Emil skilaði 17 hljóðlátum stigum, 10 lítt áberandi fráköstum og 4 laumulegum stoðsendingum.

Kjarninn

KR-ingar hafa nú náð í 6 stig af 8 mögulegum í mestu makindum! Pavel á sennilega eftir að bætast í hópinn síðar og Jón er á að giska á svona 60% snúningi. Dino á líklega talsvert inni líka…ætli KR vinni ekki bara í vor eins og vanalega?

Valsmenn geta vel tekið bjarta hluti út úr þessum leik. Kendall Lamont spilaði frábærlega og leit út eins og lykilmaður liðsins strax í fyrsta leikhluta! Saunders fann sig hins vegar ekki en hann fær auðvitað fleiri sénsa. Liðið fær nú viku til að pússa sig saman fyrir næsta leik og spennandi að sjá hvort dæmið fari loksins að ganga upp hjá þeim.

Myndasafn (Torfi Magnússon)

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -