spot_img
HomeFréttirKR-ingar sóttu stigin tvö í Hólminn

KR-ingar sóttu stigin tvö í Hólminn

KR-ingar sýndu allar sýnar bestu hliðar í Hólminum þegar að þeir sigruðu Snæfell 96-117 eftir að hafa leitt í hálfleik 48-60. Stigahæstur í liði heimamanna var Sherrod Wright með 30 stig og 7 fráköst. Hjá KR var Michael Craion stigahæstur með 22 stig og 14 fráköst.

 

Pavel Ermolinski opnaði leikinn með tveimur þristum í röð og setti tóninn fyrir gestina en liðið gerði sér lítið fyrir og setti niður 9 þrista í fyrsta leikhluta með 78% skotnýtingu! Staðan eftir fyrsta leikhluta 20-42 og Snæfellsliðið sem leit út fyrir að vera áhorfendur til að byrja með bættu leik sinn svo um munaði. Í öðrum leikhluta voru heimamenn mun betri og sýndu góða baráttu á báðum endum sem skilaði þeim 28-18 leikhluta og staðan í hálfleik 48-60. Í hálfleik var Sherrod með 17 stig fyrir Snæfell og hjá KR var Craion með 11.

 

Í þriðja leikhluta náðu KR-ingar aftur yfir tuttugu stiga forystu með kraftmiklum leik sínum en heimamenn voru alls ekki tilbúinir að slake á og leyfa KR-ingum að vaða yfir sig á skítugum bomsum. Snæfell minnkuðu muninn niður í 14 stig en staðan eftir þrjá leikhluta var 71-88. Snæfell hófu fjórða leikhluta af krafti og minnkuðu muninn á ný og núna niður í 13 stig 80-93. Eftir það var munurinn 12-15 stig en síðustu tvær körfur leiksins voru KR-inga og lokatölur 96-117.

 

KR-ingar litu mjög vel út í dag og eiga fá lið roð í þá í þeim ham sem þeir mættu í upphafi leiks, boltinn gekk gríðarlega hratt á milli og allir voru tilbúnir að klára sín færi, 78% skotnýting í 3ja stiga segir allt sem segja þarf. Snæfellsliðið á hrós skilið fyrir sína baráttu og leik sinn á köflum. KR-ingar eru eftir leikinn í kvöld einir á toppnum en Keflavík mætir Grindavík á morgun og geta þá endurheimt toppsætið. Snæfell hinsvegar féllu niður í 8. Sætið þar sem Tindastólsmenn sigruðu á Egilsstöðum og gætu heimamenn fallið niður í það 9. Takist Grindavík að sigra á morgun.

 

Framundan er tíu daga pása hjá Snæfell en KR-ingar undirbúa sig fyrir bikarúrslitaleik sinn laugardaginn 13. febrúar.

 

Myndasafn:  Sumarliði Ásgeirsson

Fréttir
- Auglýsing -