spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR-ingar eru ekki úr Frostaskjólinu fyrir ekki neitt

KR-ingar eru ekki úr Frostaskjólinu fyrir ekki neitt

KR-ingar eru ekki úr Frostaskjólinu fyrir ekki neitt

Það vorar seint á toppnum. Ef þú trúir því ekki þá skaltu bara spyrja KR-inga. Þeir hafa haldið til þar árum saman, öllum nema þeim sjálfum til armæðu og leiðinda. En því lengur sem þú dvelur á toppnum því kaldari verður vistin og í kvöld gæti henni hreinlega lokið! Hvert mannsbarn á Íslandi, nema röndótt sé, heldur með ÍR-ingum og sendir þeim hlýjar baráttukveðjur. Ekki illa meint, KR-ingar, undirritaður er auðvitað alveg hlutlaus og fer aðeins með staðreyndir. En geta KR-ingar staðið gegn vilja sauðsvarts almúga landsins og tryggt sér oddaleik á sunnudag? Spyrjum kúluna.

Spádómskúlan: Kúlan slysaðist til að spá rétt um úrslit í leik 2 í einhverju rómantísku algleymiskasti. Að þessu sinni setur hún sig í alvörugefnar stellingar, þefar af ákafa til framtíðar, opnar svo þriðja augað og sér skýrt tákn. Menn í röndóttum kraftgöllum rúlla niður snævi þakta brekku, ÍR-ingar verða Íslandsmeistarar eftir 84-81 sigur í háspennuleik!

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Siggi, Fissi Kalli, Matti, Capers

KR: Kristó, Boyd, Jón, Bjössi, Di Nunno

Gangur leiksins

Ef lagt var vel við hlustir mátti greina að það örlaði á stemmara í Hertz-hellinum. Jafnvel var spenna í loftinu og hún virtist fara mikið betur í gestina framan af leik. KR-ingar tættu margrómaða vörn ÍR-inga í sig ítrekað og höfðu sett 16 stig á fyrstu 5 mínútum leiksins víða að af vellinum. Heimamenn börðu niður 12 stig á sama tíma en þá tók við fastur liður hjá ÍR en það er hinn síendurtekni ströggl-kafli þeirra sóknarlega. Þetta virtist ætla að kæfa Breiðhyltinga strax í byrjun, ekki síst vegna þess að KR-ingar héldu áfram að raða stigum niður. Borche tók leikhlé þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum í stöðunni 12-20. Það fór best í Finn Atla Magnússon en hann setti 2 þrista í röð og staðan frekar ófríð fyrir ÍR, 14-26. Að leikhlutanum loknum leiddu gestirnir 18-29.

Geitin hóf annan leikhlutann með þristi og skömmu síðar stóðu leikar 20-35. Allir sem eitthvað hafa fylgst með úrslitakeppninni vita að ÍR-ingar hafa enga hugmynd um hvað það er að gefast upp og Matti hóf áhlaup heimamanna með þristi. Leikhlé Inga Þórs hafði engin áhrif, Fissi Kalli bætti öðrum við nokkru síðar en Finnur nokkur Atli Magnússon svaraði hinum megin og fékk villu að auki! Þá voru góð ráð dýr fyrir heimamenn, en þeir fengu þá himnasendingu frá höfuðstað Vesturlands er Trausti, Borgnesingurinn snjalli, smellti einum rándýrum. Þarna vottaði fyrir brosviprum í andlitum stuðningsmanna ÍR enda munurinn allt í einu aðeins 2 stig, staðan 41-43 í hálfleik.

KR-ingar byrjuðu frábærlega í seinni hálfleik. Bjössi Kristjáns opnaði hann með þristi og ítalski seiðskrattinn bætti öðrum við. Borche tók strax leikhlé og það hafði svo sannarlega tilætluð áhrif. Um miðjan leikhlutann var Siggi búinn að raða 4 vítum niður og ÍR-ingar komnir með forystu, 51-50, í fyrsta sinn síðan í 2-0. Fissi Kalli kom sínum mönnum svo í 56-50 með þriggja stiga skoti og það mátti greina eilítil fagnaðaróp hér og þar í húsinu af því tilefni. Þá tók Ingi leikhlé með betri árangri en áður. Finnur Atli, hver annar, jafnaði leikinn í 58-58 eftir körfu góða og víti! Fyrir lokaleikhlutann leiddu gestirnir 60-61.

Julian Boyd hafði verið frekar rólegur fram að þessu en steig heldur betur upp í mikilvægasta leikhlutanum. Hann skoraði fyrstu 6 stig leikhlutans en ÍR-ingar voru um 3 mínútur að setja fyrstu stigin sín í leikhlutanum. Capers náði loks að svara fyrir ÍR-inga og staðan var 68-71 þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af leiknum og Ingi tók þá leikhlé. Bjössi ,,clutch“ henti í einn svaðalegan að leikhléi loknu og þegar 2:36 voru eftir tók Borche leikhlé í stöðunni 68-74. Ef Borche fengi alltaf u.þ.b. 4 leikhlé til viðbótar myndu ÍR vinna alla leiki því Capers og Siggi sáu til þess að munurinn var aðeins 2 stig, 75-77, þegar um 40 sekúndur lifðu leiks. Að þessu sinni reyndust þó KR-ingar sterkari á lokasekúndunum, ekki síst Kristó en hann svo gott sem kláraði leikinn á línunni þegar 12 sekúndur voru eftir með tveimur vítum. Lokatölur urðu 75-80 í geggjuðum leik! Oddaleikur á sunnudaginn!

Maður leiksins

Finnur Atli spilaði í 14 mínútur og var næststigahæstur KR-inga með 15 stig! Hann var sá eini sem skoraði af bekknum hjá KR en það var jafn mikið og allur bekkurinn hjá ÍR. Í byrjunarliðið með manninn!

Kjarninn

KR-ingar léku án Pavels en hann haltraði um hellinn og veitti andlegan styrk. Þá er ekki amalegt að hafa einn Finn Atla til að leggja til málanna það sem upp á vantar! KR-ingar eru orðnir svo vanir kuldanum þarna uppi að ekkert bítur á þá. Í KR-liðinu eru líka meira og minna KR-ingar og undirritaður telur að það hafi jafnvel gert gæfumuninn í kvöld. Það var gríðarlegur baráttuvilji í þeirra liði, hæfileikar einir og sér sigra ekki ÍR-inga. 

Geta ÍR-ingar unnið þriðja leikinn í röð í Vesturbænum? Já, auðvitað! Ef ÍR-ingar vinna þriðja oddaleikinn í röð á útivelli leggur undirritaður til að hlé verði gert á körfuboltaiðkun á Íslandi í nokkur ár eða þar til körfuboltaunnendur hafa jafnað sig á algerlega geggjuðu tímabili og svakalegasta Öskubuskuævintýri jarðkringlunnar.

Tölfræði leiks

Myndasöfn

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Bára, Þorsteinn og Bjarni

Viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -