12:15
{mosimage}
(Böðvar og fyrirliðinn Fannar Ólafsson fagna í gærkvöldi)
Formaður Körfuknattleiksdeildar KR, Böðvar Guðjónsson segir að KR-ingar muni íhuga það vandlega hvort Íslandsmeistararnir taki þátt í Evrópukeppninni á næstu leiktíð rétt eins og Keflavík og Njarðvík gerðu þetta árið. Böðvar segir að hann og Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari KR, hafi rætt um það fyrir leiktíðina að mikilvægast væri að koma liðinu í úrslitakeppnina og þá væri hægt að hugsa um Evrópukeppni en ef liðið yrði Íslandsmeistari yrið málið tekið til alvarlegrar skoðunar og nú er sá tími runninn upp.
,,Það var huggulegt að vakna í morgun og fara aðeins yfir þetta. Ég var Íslandsmeistari sem leikmaður árið 1990 og núna sem formaður og ég get ekki sagt annað en að ég sé ákaflega stoltur af strákunum og er hæstánægður með þá Benedikt og Finn, þjálfara liðsins,” sagði Böðvar í samtali við Karfan.is.
,,Hvað Evrópukeppnina varðar þá þarf í fyrsta lagi að fjármagna svona pakka og það þarf að setjast niður og leita leiða til þess. Ég hef fulla trú á því að við fáum meðbyr við fjármögnunina og ef það gengur upp þá tökum við slaginn,” sagði Böðvar en ef hann minnti rétt þá tók KR síðast þátt í Evrópukeppni leiktíðina 1989-1990 þegar Lazlo Nemeth var með liðið og Böðvar leikmaður.
Það eru því allar horfur á því að KR-ingar muni fara í Evrópukeppnina á næsta ári en það skýrist væntanlega í bráð. Böðvar bætti því við að nú væri sú umgjörð komin hjá KR utan um starf félagsins sem stefnt hefði verið að síðustu tvö ár. Skemmst er að minnsta veglegrar bikarhelgi yngri flokka félagsins og svo úrslitakeppnina sjálfa hjá meistaraflokki KR svo eitthvað sé nefnt. ,,Áhorfendur eiga heiður skilinn fyrir sinn þátt og það var gaman að sjá hversu oft þetta KR lið var beygt í úrslitakeppninni en það tókst ekki að brjóta það,” sagði Böðvar en þegar hann hafði lokið við að fagna með sínum mönnum í gærkvöldi hélt hann rakleiðis heim og horfði á leikinn endursýndann á SÝN með syni sínum, hvað annað?