spot_img
HomeFréttirKR hefur ekki Brenton

KR hefur ekki Brenton

11:30 

{mosimage}

 

 

Annar leikur Njarðvíkur og KR í úrslitum Iceland Express deildarinnar fer fram í kvöld kl. 20:00 í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Njarðvíkingar leiða einvígið 1-0 eftir 99-78 sigur á mánudag þar sem Íslandsmeistararnir hreinlega kaffærðu KR í fjórða og síðasta leikhlutanum. Þrjá sigurleiki þarf til þess að verða Íslandsmeistari en Njarðvíkingar fögnuðu síðast Íslandsmeistaratitli á heimavelli árið 1991 þegar þeir höfðu betur í úrslitarimmunni gegn grönnum sínum úr Keflavík. Víkurfréttir fengu landsliðsþjálfarann og þjálfara Keflavíkur, Sigurð Ingimundarson til að rýna í leik kvöldsins og næstu leiki liðanna í úrslitakeppninni. Frá þessu er greint á www.vf.is

 

,,Það er erfitt að áætla annað en að Njarðvík verði meistari eftir þennan fyrsta leik liðanna í Njarðvík en KR hefur á fullt af fínum leikmönnum að skipa og eiga t.d. þá Pálma og Edmund Azemi alveg inni úr fyrsta leiknum,” sagði Sigurður en bætti því að það myndi ekki koma honum á óvart ef KR myndi vinna annan leik liðanna sem fram fer í DHL-Höllinni í kvöld. ,,Ef KR vinnur í kvöld ætla ég mér ekki að spá fyrir um restina af einvíginu. Njarðvík var bara í allt öðrum styrkleikaflokki en KR í fyrsta leik og allt of margir leikmenn KR að spila illa,” sagði Sigurður.

 

Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson náði sér aldrei á strik í fyrsta leiknum og gerði aðeins sex stig í leiknum en tók engu að síður 11 fráköst. Sigurður þekkir Fannar manna best og hafði þetta að segja um fyrrum lærisvein sinn. ,,Þegar Fannar var ekki inni á vellinum í fyrsta leiknum var Njarðvík alltaf að skora undir körfunni og það er hann sem bindur saman KR vörnina,” sagði Sigurður. Tyson Patterson, leikstjórnandinn knái, hefur reynst mörgum varnarmanninum ofviða í vetur og sagði Sigurður að ekki væri til sá varnarmaður í deildinni sem gæti haldið Tyson fyrir framan sig. ,,Hann komst upp að körfunni þegar honum datt í hug og það er eitthvað sem KR getur vel notað betur. Njarðvíkingar hafa það hinsvegar sem KR hefur ekki og það er Brenton Birmingham. Vörn KR mun snúast um að stoppa Brenton og ef þeir gera ekki góða tilraun til þess þá skorar Brenton 30 stig, sama hver er að gæta hans.”

 

Sigurður á von á skemmtilegum leik í kvöld og segir það mikinn kost hjá báðum liðum að þurfa ekki að treysta á einn leikmann í stigaskorinu heldur hafi bæði lið á góðri breidd leikmanna að skipa. ,,Það verður spennandi að sjá hvernig leikurinn í kvöld mun þróast og við eigum eftir að sjá skemmtilega hluti frá báðum liðum og þau eiga eflaust eftir að bjóða upp á hörkubolta.”

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -