Fyrsti leikur úrslitaviðureignarinnar milli KR og Grindavíkur hefst í kvöld og því við hæfi að renna yfir tölfræði liðanna í úrslitakeppninni og spá í spilin fyrir framhaldið. Tölfræði úrslitakeppninnar sýnir nokkurn veginn að Grindavík hefur haldið dampi í gegnum keppnina en KR hefur slakað umtalsvert á í varnarleiknum. Nýting andstæðinga og stig per sókn eru að aukast hjá andstæðingum KR og KR-ingar eru að fá á sig mun meira af þriggja stiga körfum en í deildarkeppninni. Ítarleg samantekt á tölfræði liðanna í deild og úrslitakeppni er að sjá hér að neðan.
En nóg um þessa tölfræði. Snúum okkur heldur að því sem meira máli skiptir. Hvernig vegnar liðum þegar komið er í úrslitaviðureignina sjálfa?
Grindvíkingar hafa níu sinnum komist í úrslitin eftir að úrslitakeppnin var sett á árið 1984. Þeir hafa unnið titla í þrjú skipti af þessum níu frá upphafi sem gefur 33,3% árangur. Frá því best-of-5 fyrirkomulagið var sett á hefur Grindavík farið sjö sinnum í úrslit og unnið tvisvar eða síðastliðin tvö ár, sem gefur 28,5% árangur.
Aðra sögu er að segja af KR. Frá upphafi hefur KR farið sjö sinnum í úrslit og unnið fimm sinnum, eða náð 71,4% árangri. Síðan best-of-5 fyrirkomulagið var sett á hafa KR farið sex sinnum í úrslit og unnið fimm sinnum sem gefur 83,3% árangur.
Heimavöllurinn virðist skipta litlu máli þegar í úrslitin kemur því 56% leikja í úrslitum frá upphafi hafa unnist á heimavelli en 44% á útivelli. Eftir að best-of-5 fyrirkomulagið var sett á hafa 57% leikja unnist á heimavelli en 43% á útivelli.
Alls tíu sinnum hefur andstæðingi verið sópað út úr úrslitaviðureign og tólf sinnum hefur tapliðið náð að vinna einn leik. Alls sjö sinnum hefur úrslitaviðureign farið í oddaleik og í aðeins einni viðureign tókst útiliði að vinna oddaleik.
Þau lið sem hafa heimavallarréttinn hafa unnið meistaratitilinn í 20 þeim 30 viðureignum sem leiknar hafa verið. 10 sinnum hefur liðið sem ekki hefur haft heimavallarréttinn unnið titil.
21 sinni hefur liðið sem vinnur fyrsta leikinn í úrslitaviðureign endað með að vinna titilinn.
KR og Grindavík hafa tvisvar sinnum mæst í úrslitum, árin 2000 og 2009. Árið 2000 vann Grindavík fyrsta leikinn en KR rúllaði upp næstu þrem. Árið 2009 fóru liðin alla leið í oddaleik þar sem KR hafði yfirhöndina. KR er því 2-0 á móti Grindavík í úrslitum.
Þegar liðin mættust 2009 vannst enginn leikur með meiri mun en 13 stigum og meðalmunur liðanna var 8,2 stig í gegnum öll úrslitin. Þá var KR með gríðarlega vel mannað lið en með seiglunni og baráttu tókst Grindavík að þvinga oddaleik. KR vann 21 leik í deildarkeppninni það ár, líkt og þeir gerðu á þessari leiktíð.
Þessi sería er galopin að mínu mati. Fyrir úrslitakeppnina var við því búist að KR myndi rúlla yfir allt sem í vegi þeirra var en tölfræði þeirra í úrslitakeppninni gefur vitnisburð um að vörnin þeirra sé að slaka á. Grindvíkingar sendu skýr skilaboð út með slátrun þeirra á Njarðvíkingum í oddaleik liðanna um daginn. Grindvíkingar eru með vindinn í bakið og KR-ingar verða að vera tilbúnir í slaginn strax frá upphafi. Það þýðir ekkert að vera sofandi líkt og í fyrsta leik liðanna eftir jólafrí í janúar, þegar Grindavík vann sannfærandi sigur á KR í DHL höllinni.
Ekki vera hissa ef þessi sería fer líka í oddaleik. Veislan er rétt að byrja!