spot_img
HomeFréttirKR flengdi Keflavík aftur

KR flengdi Keflavík aftur

KR sigraði Keflavík í 15. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, DHL höllinni, með 109 stigum gegn 73. Keflavík fara því úr því 3. sæti og sitja nú í 5. til 6. sæti deildarinnar (16 stig) ásamt Snæfell á meðan að KR, þrátt fyrir tap í síðustu umferð fyrir Tindastól, sitja sem fastast í 1. sætinu (28 stig) þegar 7 umferðir eru eftir.
 

 

Fyrir viðureign kvöldsins höfðu liðin tvisvar spilað gegn hvoru öðru í vetur. Annarsvegar var það deildarleikur liðanna sem fram fór í Keflavík þann 30. október, en hann endaði með 23 stiga sigri KR. Hinsvegar var það viðureign í 8 liða úrslitum Poweradebikarkeppninni sem fram fór í DHL húsinu þann 18. janúar, sem endaði með 21 stigs sigri KR. Heildarstigatala liðanna fyrir leik kvöldsins kom því, eftir þessa tvo leiki, út í um -44 stigum fyrir gestina frá Keflavík.

 

Keflavík, þó, í óðaönn að endurheimta mikilvæga leikmenn síns liðs úr meiðslum, hafa sýnt mikinn stíganda í sínum leik það sem af er ári. Kannski hvað best einmitt í síðasta leik sínum, þar sem þeir sýndu af sér hverja sparihliðina á fætur annarri og hömruðu liði Þórs úr Þorlákshöfn niður fyrir sig í töflunni eftir slátrun heima í Keflavík.

 

Á meðan að vél KR hafði verið að hrykkjast aðeins til (ef svo má segja), fyrst í virkilega ósannfærandi sigri eftir tvær framleggingar gegn botnliði ÍR og svo nú síðast með sínu fyrsta tapi í vetur gegn Sauðkrækingum Tindastóls.

 

Allt kom þó fyrir ekki. Fyrri hálfleikurinn var eins og beint framhald af síðustu viðureign þessara liða. Sá fyrsti endaði með 12 stiga forystu heimamanna í 30-18 og svo var staðan komin í 61-40 þegar að flautað var til hálfleiks.

 

Mestu munaði um Pavel Ermolinskij fyrir KR í hálfleiknum, en sá knái setti 4 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum. Hjá gestunum voru það Davon Usher (12 stig og 4 fráköst) og Arnar Freyr Jónsson (9 stig og 2 stoðsendingar) sem héldu þeim á floti.

 

Seinni hálfleikurinn í þessum leik var svo bara algjörlega og án nokkurs vafa, eitthvað það öruggasta framhald af fyrri hálfleik sem spilaður hefur verið. Þar sem að KR héldu bara áfram að auka við forystu sína, alveg þangað til að Keflavík kastaði inn handklæðinu (í enda 3. leikhluta) með því að hvíla sína lykilmenn, en þá gerðu þeir slíkt hið sama og leikurinn leystist að mestu upp í baráttu yngri manna það sem eftir lifði. Þriðji leikhlutinn endaði með 27 stiga mun (86-59) og svo fór að eftir þann fjórða fóru KR með 36 stiga (106-73) sigur af hólmi. 

 

Maður leiksins var leikmaður KR, Finnur Atli Magnússon, sem skilaði hæsta framlagi (20) allra leikmanna á vellinum, en hann skoraði 14 stig (14/14 skotnýting) og tók 3 fráköst á þeim 14 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

 

Punktar:

  • KR var 14/30 (47%) fyrir utan þriggja stiga línuna á móti 4/22 (18%) hjá Keflavík.
  • KR tók 49 fráköst í leiknum á móti 36 hjá Keflavík.
  • KR voru með 31 stoðsendingu í leiknum á móti 16 hjá Keflavík.
  • 7 leikmenn KR skoruðu 10 stig eða meira á móti 3 hjá Keflavík.
  • Það mættu 3-5 aðdáendur Keflavíkur á leikinn til þess að styðja sína menn á móti hundruðum áhangenda KR.
  • KR á ekki fleiri leiki gegn Keflavík í vetur (nema komi til viðureigna tengdri úrslitakeppni).

 

Myndasafn 

Tölfræði 

 

KR-Keflavík 109-73 (30-18, 31-22, 25-19, 23-14)
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 21/6 fráköst, Michael Craion 15/8 fráköst/5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 14/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 14, Björn Kristjánsson 13/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 10/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 10, Illugi Steingrímsson 6, Pavel Ermolinskij 4/10 fráköst/12 stoðsendingar, Vilhjálmur Kári Jensson 2, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 0. 
 
Keflavík: Davon Usher 19/9 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 13, Valur Orri Valsson 10, Guðmundur Jónsson 9/7 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 6/4 fráköst, Reggie Dupree 5, Damon Johnson 5/8 fráköst, Knútur Eyfjörð Ingvarsson 4, Andrés Kristleifsson 2, Gunnar Einarsson 0, Hilmir Gauti Guðjónsson 0, Tryggvi Ólafsson 0. 
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

Sigurður – Keflavík:

 

Brynjar – KR:

 
Fréttir
- Auglýsing -