spot_img
HomeFréttirKR fara taplausar gegnum 1. deild kvenna og úrslitakeppnina - úrvalsdeild kvenna...

KR fara taplausar gegnum 1. deild kvenna og úrslitakeppnina – úrvalsdeild kvenna bíður þeirra

KR og Fjölnir mættust í þriðja leik úrslitarimmunnar í 1. deild kvenna í kvöld í DHL-höllinni. KR gat með sigri tekið sér sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta tímabili á meðan að Fjölnisstúlkur gátu marið allavega einn annan leik í séríunni með útisigri. Heimastúlkurnar úr Vesturbænum tóku öll völd í leiknum strax frá byrjun og gestirnir áttu í raun aldrei möguleika. Leikurinn fór að lokum 85-51 og KR er því komið í úrvalsdeild kvenna.
 

Gangur leiksins

Fjölnir skoraði fyrstu körfu leiksins en eftir það fór allt niður í mót hjá þeim, enda settu KR-ingar næstu 20 stig leikhlutans svo að eftir 7 mínútur var staðan orðin 20-2. Þeim tókst þetta með því að vera mjög aggressívar í vörn og duglegar að sækja hratt í bakið á Fjölnisstúlkum. Lexi Petersen var mjög dugleg að keyra upp hraðann og uppskar 5 stoðsendingar strax á fyrstu 10 mínútum leiksins. Fjölnir virtust æsast upp við þennan hraða og tóku mikið af fljótfærum skotum sem rötuðu ekki niður á meðan að þær svart- og hvítklæddu settu 5 þriggja stiga skot í 9 tilraunum í fyrsta leikhluta (55,5% nýting) og leikhlutanum lauk 26-10.

Það virtist lítið ætla að lagast í stöðunni í öðrum leikhlutanum en Fjölnir náði aðeins að herða sig og hitta betur úr skotunum sínum. Þær gulklæddu náðu að setja smá pressu á KR-inga og náðu sem dæmi Perlu Jóhannsdóttur út af í villuvandræði. Þær skoruðu 16 stig í leikhlutanum sem hefði verið ágætt ef að KR hefði ekki skorað 25 stig á sama tíma. Staðan í hálfleik var því 51-26 og útlitið svart (og hvítt) fyrir Fjölni.

KR-ingar komu mögulega heldur rólegar inn í seinni hálfleikinn og leyfðu Fjölni aðeins að stjórna hraðanum. Fjölnir náði að hægja á sókn KR og gátu unnið leikhlutann með þriggja stiga mun. Aníka Lind var nokkuð öflug í leikhlutanum, en hún kom af bekknum í fyrsta sinn á tímabilinu í þessum leik og skoraði aðeins 1 stig í fyrri hálfleik. Staðan í lok leikhlutans var 69-47.

Þegar komið var í fjórða leikhluta var orðið útséð hverjar ynnu og þá fóru minni spurningar eins og "komast allar í liðinu á blað?" og "nær Lexi þrefaldri tvennu?" að skjóta upp kollinum. Því miður náðu allar í liðinu ekki að komast á blað en Lexi náði þrefaldri tvennu og seinustu mínúturnar voru ungu KR-stelpurnar inn á og skiluðu sínu. Orkan virtist farin úr Fjölnisstelpum sem skoruðu aðeins 4 stig í lokaleikhlutanum (öll stigin hennar Aníku Lindar). Leikurinn fór að lokum 85-51 og KR er því sigurvegari úrslitakeppni 1. deildar kvenna!
 

Tölfræðin lýgur ekki

Fjölnir hitti á mjög slæmt skotkvöld og þær áttu í miklum vandræðum á köflum með KR. Grafarvogspíurnar hittu aðein úr 25% skota sinna utan af velli og hittu aðeins úr 2 þristum í 28 tilraunum (7% þriggja stiga nýting). Hvað KR varðar hittu heimastúlkur úr 44% skota sinna utan af velli og úr 8 af 28 í þristum (29% þriggja stiga nýting). Þær voru líka duglegari að sækja skotvillur, enda fengu þær 28 víti í leiknum gegn 14 hjá Fjölni. KR tók skiljanlega fleiri fráköst en Fjölni og gáfu rúmlega tvöfalt fleiri stoðsendingar (23 vs. 10). Að öðru leyti er tölfræði liðanna nokkuð svipuð og það má því segja að það sem hafi tapað leiknum var slöpp skotnýting Fjölnis.

 

Hetjan

Hetja kvöldsins var Alexandra "Lexi" Petersen. Fyrir framan foreldra sína, sem hafa verið á landinu undanfarið og séð alla úrslitarimmuna, náði hún þrefaldri tvennu og stýrði hraða KR-inga af stakri fagmennskku. Í fyrri hálfleik setti hún iðulega í fluggírinn, keyrði upp völlinn í hraðaupphlaupi og náði ýmist góðri sendingu á lausan liðsfélaga eða góðri körfu. Hún var komin með 23 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar í hálfleik. Lexi lauk leik með 29 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar, tvo stolna bolta og tvö varin skot. Framlag hennar varð 36 í lok leiksins, hæst allra. Aðrar flottar voru Eygló Kristín Óskarsdóttir (14 stig, 14 fráköst og 2 stuldi), Ástrós Lena Ægisdóttir (13 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stuldir, 3 varin skot og 0 tapaðir boltar) og Unnur Tara Jónsdóttir (7 stig og 10 fráköst). Hjá Fjölni voru þær McCalle Feller og Berglind Karen Ingvarsdóttir stigahæstar með 17 og 12 stig.
 

Kjarninn

KR hefur þá tekist að fara gegnum alla 1. deild kvenna án taps í deildarkeppninni og í úrslitakeppninni, sem verður að teljast gott. Þær hafa unnið 30 keppnisleiki í röð síðan að tímabilið hófst 7. október 2017 (ca. 6 mánuðir síðan). KR mættu í betra formi en hin liðin og hlupu flest liðin niður. Þau voru vissulega með erlendan leikmann innan sinna raða en eins og sást á seinni hluta tímabilsins þegar Lexi var meidd þá héldu KR-inga áfram að rúlla og skiluðu sigrum. Fjölnir er þá áfram í 1. deild kvenna á næsta ári og mæta þar vonandi verðugum andstæðingum meðan að kvennalið nokkurra félaga halda áfram að vaxa og dafna. Fjölnir sýndi flotta takta í allan vetur og við sjáum þær vonandi í toppbaráttunni aftur á næsta ári. 

Til hamingju með að vera komnar upp í Domino's deildina, KR!
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Sá ekki fyrir að við myndum ekki tapa leik."

"Þetta var eiginlega bara búið í hálfleik."

"Liðsfélagar mínir hafa byggt mig upp síðan ég kom."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -