spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR fallnir í fyrstu deildina í fyrsta skipti í 67 ára sögu...

KR fallnir í fyrstu deildina í fyrsta skipti í 67 ára sögu félagsins þrátt fyrir sigur gegn ÍR

KR lagði ÍR í kvöld í Skógarseli í 19. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn eru liðin við botn deildarinnar, KR í 12. sætinu með 8 stig og ÍR sæti ofar í því 11. með 10 stig.

Fyrir leik

Í fyrri leik liðanna á tímabilinu þann fyrsta desember hafði ÍR sigur á KR á Meistaravöllum, 88-95. Í þeim leik var núverandi leikmaður Þórs atkvæðamestur fyrir KR með 15 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Fyrir ÍR var Taylor Jones bestur með 24 stig, 18 fráköst og 7 stoðsendingar.

Fallnir

KR-ingar voru fallnir áður en leikur kvöldsins kláraðist þar sem að Stjarnan hafði lagt Breiðablik nokkuð örugglega og ómögulegt hefði verið fyrir liðið að ná nokkrum liðum áður en að deildin klárast eftir þrjár umferðir. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem KR fellur úr deild þeirra bestu frá stofnun félagsins árið 1956. Fyrsta deildin var reyndar ekki stofnuð fyrr en átta árum seinna, 1964 og því eru 58 ár síðan að lið gat fallið í fyrsta skipti.

Þetta tímabil verið algjör martröð fyrir KR sem ekki alls fyrir löngu (2014-2020) vann sex Íslandsmeistaratitla í röð. Þegar 19 umferðir eru búnar hafa þeir aðeins unnið þrjá leiki, úti gegn Þór fyrir áramótin og þá báru þeir sigurorð af Breiðablik og Keflavík nú eftir áramótin.

Gangur leiks

Heimamenn í ÍR byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Ná með sterkum varnarleik að stoppa sóknaraðgerðir KR trekk í trekk og sókn þeirra gengur nógu vel til þess að liðið nái að skapa sér mest 12 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum. KR-ingar spyrna þó við undir lok fjórðungsins og er munurinn aðeins 3 stig fyrir annan, 26-23.

Leikurinn er svo í nokkru jafnvægi í öðrum leikhlutanum. Þar sem að heimamenn ná þó allan fjórðunginn að vera skrefinu á undan. KR fær kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn á lokasekúndum fyrri hálfleiksins, en Aapeli Elmeri Ristonpoika Alanen bregst bogalistin og ÍR fer með tveggja stiga forystu inn til búningsherbergja í hálfleik, 46-44.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Collin Pryor með 12 stig á meðan að fyrir KR var Justas Tamulis kominn með 17 stig.

Það var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt fyrir stigin tvö á upphafsmínútum seinni hálfleiks. KR nær að halda í við heimamenn og gott betur en það. Ná sinni fyrstu forystu í leiknum eftir nokkurra mínútu leik í þriðja leikhlutanum. Munurinn er þó aðeins tvö stig fyrir lokaleikhlutann, 61-63.

Leikurinn er svo í járnum allt fram á lokamínúturnar. Þar sem að staðan er jöfn 74-74 þegar þrjár mínútur eru eftir af leiknum. Á síðustu tveimur mínútunum nær vörn KR að halda og nær liðið að skapa sér smá forystu, 79-83 þegar rúm mínúta er eftir. Bæði lið fara nokkuð illa að ráð sínu í lokasóknum sínum og nær hvorugt lið að skora fyrr en aðeins nokkrar sekúndur voru eftir. ÍR nær þó að koma sér í stöðu til þess að jafna leikinn þegar um 9 sekúndur voru eftir, en allt kemur fyrir ekki. Niðurstaðan að lokum sigur KR, 82-85.

Atkvæðamestir

Bestur í liði KR í dag var Þorvaldur Orri Árnason með 20 stig og 11 fráköst.

Fyrir ÍR var það Taylor Jones sem dró vagninn með 9 stigum, 18 fráköstum og 11 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 16.mars. Þá fær KR topplið Njarðvíkur í heimsókn og ÍR heimsækir Íslandsmeistara Vals.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Atli Mar)

Fréttir
- Auglýsing -