spot_img
HomeFréttirKR er meistari meistara karla

KR er meistari meistara karla

KR og Grindavík mættust í DHL höllinni í kvöld í leik um titilinn meistari meistara karla. 
 
Leikurinn hófst með látum þar sem Ólafur Ólafsson tróð boltanum, öllum að óvörum, með svo mikilli ákefð að skotklukkan sem föst er á körfustoðunum slökkti á sér og fór ekkert aftur í gang. Eftir stutt leikhlé og snörp viðbrögð starfsmanna DHL-hallarinnar var hægt að halda áfram leiknum.
 
Annað verður seint sagt en KR-ingar séu tilbúnir til leik í þessu Íslandsmóti. Sókn heimamenna gekk eins og vel smurð vél á meðan gestirnir létu sér linda erfið skot fyrir utan þriggja stiga línuna. Það gekk ágætlega á meðan Grindavík var að hitta en þess á milli var róðurinn erfiður.
 
Um miðbik þriðja hluta skipti Finnur Freyr, þjálfari KR byrjunarliði sínu út af og setti bekkinn inn á með 20 stiga forystu á töflunni.
 
Við það hófu Grindvíkingar að sækja aftur og náðu að saxa forystu KR-inga niður í 7 stig. Finnur sá engan annan leik í stöðunni en að henda byrjunarliðinu aftur inn á til að klára leikinn.
 
Það var eins og við manninn mælt. KR vélin fór að snúast aftur á réttu tempói og leiknum landað í rólegheitum þar til lok fjórða þegar bekkurinn fékk aftur að spreyta sig.
 
Leiknum lauk með öruggum sigri KR-inga 105-81.
 
Óhapp varð þegar Jón Hrafn Baldvinsson, leikmaður KR lenti illa eftir samstuð í teignum og lá óvígur eftir. Jón kvartaði undan verkjum í baki og höfði svo sjúkraþjálfari KR tók engar áhættur og kallaði eftir sjúkraflutningabíl. Karfan.is bíður frétta af Jóni og óskar honum góðs og skjóts bata.
 
Skilvirkni KR var í hæstu hæðum. 54% sóknarnýting og 1,18 stig per sókn auk þess sem skotnýtingin var ekki verri eða 56,7% eFG%. 
 
Mike Craion setti niður 27 stig, reif niður 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Pavel Ermolinskij skilaði sinni fyrstu þrennu vetrarins með 15 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar.
 
Hjá Grindavík fór Ólafur Ólafsson hamförum með 31 stig og 11 fráköst. Minnstu munaði að hann hefði hamrað niður hrottalegri troðslu í grímuna á Mike Craion en hann var ekki á þeim buxunum og varði þá tilraun aftur oní kok á Ólafi. Oddur Kristjánsson bætti við 18 stigum og 9 stoðsendingum.
 
KR-ingar eru meistarar meistara karla 2014. Til hamingju KR.
Fréttir
- Auglýsing -