spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKR byrjar tímabilið vel - Sigur á Haukum á útivelli

KR byrjar tímabilið vel – Sigur á Haukum á útivelli

Fyrir leikinn

Haukar tóku á móti KR-ingum í fyrsta leik liðanna í Domino’s deild kvenna 2018-2019. Fyrir leikinn höfðu Haukar rétt tapað fyrir Keflavík í Meistara meistaranna seinasta sunnudag á meðan að KR hafði aðeins spilað æfingaleiki m.a. gegn Stjörnunni og Njarðvík og tapað þeim.

Gangur leiksins

Gestirnir byrjuðu leikinn miklu betur og á fyrstu 5 mínútunum gátu Haukar aðeins skorað 2 stig gegn 11 stigum KR áður en Ólöf Helga nýtti sitt fyrsta leikhlé. Haukastúlkur tóku við sér og minnkuðu muninn í 1 stig fyrir leikhlutaskiptin með því að skora 12 stig gegn aðeins 4 stigum hjá KR. Í öðrum leikhlutanum var staðan öllu jafnari og fyrri hálfleik lauk í stöðunni 33-33.

Liðin héldu áfram að skiptast á forystunni í þriðja leikhluta en fjöldinn allur af töpuðum boltum í lokafjórðungnum ásamt afleitri skotnýtingu heimamanna skilaði sér í því að KR-ingar unnu fyrsta leikinn sinn í deildinni í ár, 59-67 gegn sjálfum Íslandsmeisturum seinasta tímabils.

Lykillinn

Kiana Johnson var mjög mikilvæg fyrir nýliðana, en hún var allt í öllu fyrir KR-inga. Hún lauk með 32 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Hjá Haukum var Lele Hardy framlagshæst með 28 stig, 15 fráköst og 7 fiskaðar villur.

Tölfræðin

Það sem stóð út í leiknum var hve illa Haukar pössuðu upp á boltann (22 tapaðir boltar) og hve oft KR-ingar stálu boltanum (20 stolnir boltar). Þetta leiddi til fjölda hraðaupphlaupa hjá KR sem sóttu 31 stig úr hraðaupphlaupum gegn aðeins 10 hjá Haukum. Haukar töpuðu líka vítaskotabaráttunni, en heimastúlkur hittu aðeins úr 4 af 10 vítaskotum á meðan að gestirnir úr Vesturbænum nýttu 14 af 18 vítaskotum sínum.

Kjarninn

Lele Hardy þurfti að bera Haukaliðið í kvöld þar sem að flestar aðrar í liðinu áttu afleitan leik. Eftir þrjá misgóða en þó jafna leikhluta hurfu Haukastelpur í fjórða leikhlutanum, en Lele var sú eina sem hitti úr skoti í lokafjórðungnum (fyrir utan eitt víti hjá Þóru Kristínu Jónsdóttur) og liðið tapaði 7 boltum á seinustu 10 mínútum leiksins. KR þurftu ekki að skora nema 14 stig í seinasta leikhlutanum til að vinna með 8 stiga mun.

Samantektin

Svo virðist sem að Benedikt Guðmundsson gæti haft rétt fyrir sér þegar hann sagði að KKÍ-spáin væri röng. KR áttu góðan leik og þurftu ekki einu sinni á öllum leikmönnum sínum að halda, en Eygló Kristín Óskarsdóttir og Ragnhildur Arna Kristinsdóttir fóru t.d. ekkert inn á í leiknum. Haukar gætu verið í talsverðum vandræðum ef að þær geta ekki sýnt betri leik en þetta. Deildin er galopin! Þvílík veisla!

Fréttir
- Auglýsing -