spot_img
HomeFréttirKR betri en FSU í kvöld

KR betri en FSU í kvöld

 

KR sigraði FSU á heimavelli sínum í Vesturbænum með 20 stigum, 102-82. Með sigri í leiknum, sem var sá næstsíðasti á tímabilinu, tryggði KR sér þar með deildarmeistaratitilinn þetta árið. Engin viðhöfn var þó höfð við í kvöld, en áætlað er að bikarinn fari á loft eftir næsta leik þeirra sem verður gegn ÍR í Breiðholtinu næstkomandi fimmtudag. Fyrir FSU þýddi tapið svosem ekki mikið, þar sem að þeir voru þegar fallnir niður og munu leika í 1. deild á næsta tímabili.

 

 

Fyrir leikinn kannski ekki við miklu að búast. Eins og áður var tekið fram. KR við topp deildarinnar og nánast formsatriði fyrir þá að klára deildarmeistaratitilinn á meðan að FSU voru þegar fallnir. Því kannski fyrirfram álitið, ekkert rosalega mikið sem að gæfi til kynna að þarna yrði á ferðinni spennandi leikur.

 

Allt kom þó fyrir ekki. Liðsmenn FSU mættu vel stemmdir til leiks og virtust eiga í fullu kappi með ríkjandi deildar, Íslands og bikarmeisturum KR þrátt fyrir allt. Liðin skiptust á höggum í fyrsta leikhlutanum. Þegar 4 mínútur voru liðnar var staðan 10-8 fyrir heimamönnum. Þannig lullaði leikurinn áfram þennan fyrsta leikhluta og þegar að hann endaði var FSU komið í forystu, 23-25, eftir laglegt hollí-hú sniðskot Christopher Woods um leið og flautan gall.

 

Í öðrum leikhlutanum fóru gestirnir svo betur af stað. Skot KR voru ekki að detta og náði FSU að byggja ofaná fína byjun leiksins. Voru komnir með 6 stiga forystu, 31-37, þegar að hlutinn var um það bil hálfnaður. Hingað og ekki lengra sögðu heimamenn þá. Varnarlega fóru þeir að pressa á FSU allan völlinn og uppskáru 8-0 áhlaup, sem endaði á þrist frá Darra Hilmarssyni, næstu 2 mínúturnar. Voru því aftur komnir í forystu þegar að um 3 mínútur lifðu eftir af fyrri hálfleiknum, 39-37. Áður en að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var þessi munur þeirra svo kominn í 8 stig, 52-44.

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Mike Craion með 16 stig og 7 fráköst á meðan að fyrir gestina var það Christopher Woods sem dróg vagninn með 19 stigum og 3 fráköstum.

 

Í byrjun seinni hálfleiksins reyndu gestirnir hvað þeir gátu til þess að elta heimamenn. Voru 11 stigum undir þegar að hlutinn var um það bil hálfnaður, 64-53. Um það leyti fóru KR að pressa þá aftur, en ólíkt því sem hafði gerst í fyrri hálfleiknum, náðu liðsmenn FSU að leysa aðeins betur úr því. Fóru samt 14 stigum undir inní 4. leikhlutann, 79-65.

 

Lokaleikhlutinn, virtist, ákveðið formsatriði fyrir heimamenn. Bættu hægt og bítandi við þann mun sem fyrir var og voru komnir með 17 stiga forystu þegar að hlutinn var hálfnaður, 90-73. Næstu 3 stig þeirra komu frá leikstjórnanda þeirra, Pavel Ermolinski, en með þeim skoraði hann sitt 10 stig og náði þar með að fullkomna þrennuna í leiknum og var í kjölfarið hvíldur. Átti afbragðsleik með 10 stig, 11 stoðsendingar og 11 fráköst. Að lokum sigldu KR öruggum 20 stiga sigri í höfn 102-82.

 

Maður leiksins var leikmaður KR, Mike Craion, en hann skoraði 29 stig og tók 14 fráköst á þeim rétt rúmu 26 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði

 

Myndir

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

 

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -