spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR bar sigurorð af Val í Origo Höllinni

KR bar sigurorð af Val í Origo Höllinni

Fjöldi KR-inga mættust á Hlíðarenda í kvöld þegar að Valur tók á móti KR í þriðju umferð Dominos deildar karla. Jón Arnór fór af stað með látum og átti 7 af fyrstu 9 stigum Valsara. Eins og við var að búast voru menn hátt stemmdir og var bekkurinn hjá KR kominn með aðvörun eftir aðeins um 5 mínútur. Það varð þó ekki að sökum þar sem að KR-ingar leiddu eftir fyrsta leikhlutann, 13 – 21, en stigaskorið dreifðist nær ekkert á milli manna í Valsliðinu.

Valsliðið byrjaði annan leikhlutann af töluvert meiri krafti. Jón hélt uppteknum hætti og bættust fleiri Valsarar upp á töflu. Um miðjan leikhlutann fékk Darri þjálfari KR tæknivillu sem hann vildi meina að væri fyrir köll inn á völlinn til eigin leikmanna. Hver svo sem ástæðan var þá var bekkur KR búinn að fá aðvörun og eitthvað hefur heyrst þaðan til að verðskulda T. Valur var allt annað lið í öðrum leikhluta og staðan orðin jöfn í hálfleik, 40 – 40.

Fyrsta sókn leiksins lét vörn Valsmanna líta hræðilega út, KR nær þremur þriggja stiga skotum í sömu sókn en tekst þó ekki að skora. Enn og aftur byrjaði Jón Arnór leikhlutann af krafti og setti hann fyrstu 5 stigin í þriðja leikhluta. Stór karfa í þessum leikhluta var svo þegar Tyler Sabin stal boltanum á miðjunni af Miguel Cardoso sem stóð eftir til að kvarta í dómurunum á meðan Sabin setti niður galopinn þrist. Tyler Sabin, bandarískur leikmaður KR-inga, hrökk aldeilis í gang eftir hógværa byrjun en það verður að segjast að Cardoso, portúgalskur leikmaður Vals, heillaði ekki í þessum leik. Næsta sókn gekk litlu betur hjá Valsliðinu og Matthías Orri keyrði þá yfir völlinn og fór alla leið sjálfur, KR-ingar að keyra sig í gang. Til að bæta gráu ofan á svart þá héldu KR aftur af Völsurum í næstu sókn þar á eftir, kveiktu í klukkunni og Finnur Freyr tók leikhlé í stöðunni 45 – 51. Það heyrðist ekki mikið af vellinum upp í blaðamannastúku en það heyrðist hátt og skýrt þegar Jón öskraði á liðið sitt að taka fráköst og það svo sem skiljanlega. Næstu mínútur voru litaðar af töpuðum boltum og miklum kvörtunum við dómarana hjá leikmönnum beggja liða. Sú stemning kristallaðist svo í tæknivillu sem Sinisa Bilic fékk þegar um tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum og Valsarar allt annað en sáttir með dóminn. Það var stemnings endir á leikhlutanum hjá KR og staðan orðin 55 – 60 eftir þrjá leikhluta.

Enn og aftur byrjuðu Valsmenn leikhlutann vel, skoruðu fyrstu 8 stigin og allt í einu komnir þremur stigum yfir. Það var ekki að spyrja að því hver svaraði þá fyrir hönd KR en Sabin setti niður þriggja stiga skot beint fyrir framan bekkinn hjá Valsmönnum sem var ekki skemmt. Sabin setti svo niður annan þrist sem Valur fylgdi eftir með töpuðum bolta. Finnur Freyr tók þá leikhlé í stöðunni 63 – 68 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Ekki batnaði staðan mjög fyrir heimamenn en Pavel fékk sína fjórðu villu fyrir að brjóta á Helga Magg í þriggja stiga skoti. Helgi setti aðeins eitt víti niður af þremur og villaði útaf í næstu sókn Valsmanna fyrir brot á Kristó Acox sem skoraði og setti vítaskotið niður að auki.

Ekki fór þó betur en svo fyrir Val að Pavel villaði útaf strax í næstu sókn fyrir að brjóta á Eyjólfi Ásberg. Eyjó fékk körfuna góða en náði ekki að setja vítaskotið niður og staðan þá 68 – 71 og útlit fyrir spennandi loka mínútur. Svo varð þó ekki þar sem að Valur tapaði boltanum í næstu sókn og Jakob Örn þakkaði fyrir sig með því að setja niður risa þrist fyrir KR-inga þegar 1:30 voru á klukkunni. Næst var það svo Cardoso sem setti niður tvö víti en það var auðvitað Sabin sem sá um að drekkja vonum Valsara með enn einum þristinum. Staðan var þá orðin 70 – 77, Valur neyddist til að byrja brjóta í von um að stoppa klukkuna en tókst svo ekki að nýta eigin sóknir til þess að minnka muninn. Lokatölur voru 71 – 80 gestunum í vil, KR loks komið með stig á töfluna en annar ósigur Valsmanna staðreynd.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Fréttir
- Auglýsing -