Þórsarar í Þorlákshöfn tóku á móti KR-ingum í 15. umferð Dominos deildar karla í kvöld. Fyrir leikinn var Þór í 8. sæti deildarinnar með 12 stig og í hörku baráttu um að halda sæti í úrslitakeppninni á meðan að KR sat í 5. Sætinu með 16 stig og leik til góða í þokkabót.
Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur, í raun svo miklu betur að það er erfitt að velja úr öllum lýsingunum sem væri hægt að nota yfir spilamennsku heimamanna í fyrsta leikhlutanum. Tölurnar tala sínu máli en staðan eftir fyrsta leikhluta var 9-25 gestunum í vil.
Í öðru leikhluta fór loksins að sjást til sólar hjá leikmönnum Þórs og fleiri sem lögðu sitt af mörkum í stigaskorinu. KR hélt heimamönnum þó alltaf í ágætis fjarðlægð og munaði 10 stigum á liðunum í hálfleik, 29-39.
Seinni hálfleikurinn byrjaði eftir að Halldór Garðar hafði farið á línuna fyrir Þór og klárað tæknivíti sem KR fékk dæmt á sig eftir að leiktími 2. leikhluta rann út. Því hófst þriðji leikhlutinn í stöðunni 30-39 og Þórsarar voru mun betri í honum. KR-ingar pirruðu sig oft á dómgæslu leiksins á sama tíma og Þór gaf ekkert eftir. Á lokasekúndum 3. leikhlutans fékk svo Matthías Orri sína 5. villu og ljóst að KR yrði að spila án hans restina af leiknum. Þórsarar gengu á lagið í þessum leikhluta og náðu muninum niður í 3 stig, 54-57.
Fjórði leikhlutinn var í besta falli undarlegur. Einkenndist af mistökum hjá báðum liðum á báðum endum vallarins. Þórsarar virtust ætla klára sína ótrúlegu endurkomu með sigri og þegar nokkrar mínútur virtist stemningin öll benda til heimasigurs. KR bættu líka við sig fleiri tæknivillum og Þórsarar virtust nánast vera með lögheimili á vítalínunni á köflum enda öflugir undir körfunni og sóttu hverja villuna á fætur annarri. Það voru þó KR-ingar sem voru sterkari á lokametrunum og nýttu sér það þegar heimamenn gripu ekki færið til þess að innsigla sigurinn. Það voru því gestirnir úr Vesturbænum sem fóru með 2 stig úr þessum leik eftir tveggja stiga sigur, 74-76.