KR-b, betur þekkt sem KR Bumban, mætti Stál-úlf í 2. deild karla í gær. Eftir góða byrjun Stál-úlfs í leiknum þá sigu KR-ingar framúr undir forustu Ólafs Más Ægissonar og unnu að lokum 75-65 sigur.
Landsliðsmaðurinn fyrrverandi, Pálmi Freyr Sigurgeirsson, var mættur aftur á parketið í KR búning en hann lék síðast fyrir félagið tímabilið 2008-2009 er það varð Íslandsmeistari. Hann mun þó hafa byrjað á bekknum þar sem hann náði ekki lágmarksþyngd fyrir byrjunarliðið í vigtun fyrir leikinn.
Athygli vakti einnig að Pavel Ermolinskij var liðstjóri liðsins í leiknum og þótt hann stýra stjörnuprýddu liði Bumbunar vel og dreift mínútunum jafnt en allir leikmenn liðsins komust á blað. 12 leikmenn voru á skýrslu hjá liðinu, sem þykir sjaldgæft á þeim bæ, en líkleg skýring er samkvæmt frétt á kr.is að Bikarkeppni KKÍ er á næsta leiti og að menn séu að reyna að troða sér í næsta ævintýri Bumbunnar.