spot_img
HomeFréttirKR á toppinn eftir sigur á Fjölni

KR á toppinn eftir sigur á Fjölni

KR hafði betur þegar liðið atti kappi við Fjölni í DHL höllinni í dag í 1. deild kvenna. KR hafði yfirhöndina megnið af fyrsta leikhluta en gestirnir úr Grafarvogi hleyptu þeim aldrei langt frá sér. Þegar skammt var liðið á annan leikhluta dró í sundur með liðunum og leiddi KR með 10 stigum í hálfleik. Snemma í seinni hálfleik var munurinn orðinn 17 stig og allt stefndi í þægilegan sigur KR. Fjölnir átti góð áhlaup í síðasta leikhlutanum og náði muninum minnst niður í 7 stig en KR hleypti þeim ekki nær og sigruðu leikinn með 17 stigum, 74-57.

Tölfræðin lýgur ekki: KR var með mun betri nýtingu en Fjölnir í tveggja stiga skotum í dag eða 43% á móti 33%. Ekki voru skoraðar nema 5 þriggja stiga körfur í leiknum, KR skoraði þrjár og Fjölnir tvær. Fjölnir vann frákastabaráttuna með 59 fráköstum á móti 50 fráköstum KR en 22 tapaðir boltar gestanna voru þeim dýrkeyptir.

Hetjan: Í liði KR var Desiree Ramos bæði stiga- og frákastahæst með 27 stig og 10 fráköst og hin 16 ára Eygló Kristín Óskarsdóttir skoraði 15 stig auk þess að taka 4 fráköst.

Kjarninn: KR situr nú á toppi 1. deildar kvenna ásamt Grindavík en bæði lið eru með 6 stig eftir þrjá leiki. Fjölnir situr um miðja deild með tvo sigra í fjórum leikum. Næsti leikur KR er heimaleikur á móti ÍR en Fjölnir mun taka á móti Hamri frá Hveragerði. 

Tölfræði leiks

Myndir úr leik (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -