Unnur Tara Jónsdóttir fór mikinn þegar KR komst í 2-1 í úrslitaeinvíginu gegn Hamri í Iceland Express deild kvenna. Liðin mætast í sínum fjórða leik á laugardag þar sem KR getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Unnur Tara gerði 33 stig í liði KR í kvöld og tók 8 fráköst en Koren Schram var atkvæðamest í liði Hamars með 19 stig. Lokatölur voru 83-61 KR í vil sem léku af miklum krafti í síðari hálfleik og stungu af eftir að Hamar hafði nálgast þær óþægilega mikið á fyrstu mínútum síðari hálfleiks.
Guðbjörg Sverrisdóttir var ekki í Hamarsbúning í kvöld sökum veikinda og þá byrjaði Julia Demirer á bekknum og kom ekki inn í leikinn fyrr en í síðari hálfleik þar sem hún glímir við smávægileg meiðsli og veikindi. Íris Ásgeirsdóttir var í byrjunarliði Hamars og opnaði leikinn eftir stolinn bolta þar sem hún brunaði upp og skoraði. KR-ingar snéru vörn í sókn og með þrist frá landsliðsmiðherjanum Signýju Hermannsdóttur leiddu Vesturbæingar 8-2. KR hélt áfram að auka bilið og í stöðunni 15-6 gat Ágúst Björgvinsson ekki lengur á sér setið og tók leikhlé fyrir Hamar.
Unnur Tara Jónsdóttir og Signý Hermannsdóttir gerðu saman 12 af 15 fyrstu stigum KR í leiknum en Hvergerðingar voru í mesta basli með þær. Eftir leikhléið náðu Hamarskonur að hrista af sér gæsahúðina en KR-ingar leiddu 27-19 eftir fyrsta leikhluta þar sem þær gerðu fjögur síðustu stigin.
KR-ingar virtust ætla að stinga af í upphafi annars leikhluta þar sem Unnur Tara raðaði niður í teignum en gestirnir klóruðu sig nær og minnkuðu muninn í 36-32. Benedikt Guðmundsson lét hér í veðri vaka að hann vildi komast inn í Hamarsteiginn enda höfðu KR-ingar verið duglegir úti við þriggja stiga línuna í leikhlutanum.
Fráköstin voru að hjálpa heimakonum í kvöld og áttu mestan þátt í að KR leiddi 42-35 í hálfleik þar sem Unnur Tara var komin með 20 stig hjá KR og Kristrún Sigurjónsdóttir 13 í liði Hamars.
Íris Ásgeirsdóttir hafði það hlutverk í kvöld að opna hálfleikina og minnkaði muninn í 42-38 með þriggja stiga körfu og Hamar byrjaði 5-0 áður en KR rankaði við sér. Það var sem argur risi hefði verið vakinn af værum blundi því þegar KR maskínan komst af stað var ekki aftur snúið. Með þéttum varnarleik náðu KR-ingar að auka muninn í 10 stig, 52-42. Sóknarleikur Hamars varð lítill sem enginn gegn KR vörninni í þriðja leikhluta og staðan 64-50 fyrir lokasprettinn.
Í fjórða leikhluta voru KR-ingar komnir á bragðið og hleyptu Hamri aldrei nærri sér. Jenny Finora jók muninn í 69-55 með þriggja stiga körfu. Þriggja stiga nýting liðanna var samt ekkert sérstök í kvöld, bæði lið með 20% nýtingu.
Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka voru þær Signý Hermannsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir báðar komnar með fjórar villur í liði KR en það skipti ekki sköpum og KR kláraði leikinn örugglega 83-61.
Á laugardag getur því KR orðið Íslandsmeistari með sigri í Hveragerði en þar hefur KR unnið alla sína leiki í vetur, Hamar á enn eftir að vinna deildarmeistarana í Blómabænum þrátt fyrir að hafa unnið KR í þrígang í DHL-Höllinni! Að þessu sögðu má það ekki gleymast að Hamar hefur verið að feta nýjar slóðir þessa leiktíðina, eru í fyrsta sinn í úrslitum úrvalsdeildar og búnar að vinna sinn fyrsta sigur í Keflavík og á svoleiðis tímabili er ekki óhætt að afskrifa Hamar alveg strax. Þær lentu jú 2-1 undir gegn Keflavík í undanúrslitum en eru komnar í úrslit, 2-1 undir.
Eins og fyrr greinir var Unnur Tara Jónsdóttir besti leikmaðurinn í kvöld með 33 stig, 8 fráköst og 5 stolna bolta en henni næst kom Jenny Finora með 15 stig.
Koren Schram var með 19 stig og 7 fráköst í liði Hamars, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir gerði 15 stig og tók 10 fráköst og þá var Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig.