spot_img
HomeFréttirKR 2-1 Hamar: Sagt eftir leik

KR 2-1 Hamar: Sagt eftir leik

 
Karfan.is ræddi við Benedikt Guðmundsson og Signýju Hermannsdóttur eftir sigur KR á Hamri í kvöld sem og Ágúst Björgvinsson þjálfara Hamars.
Signý Hermannsdóttir – KR
 
Það má segja að við höfum tekið vörnina okkar í gegn og þá sérstaklega í síðasta leik. Þá vorum við alveg með vörnina á hreinu en hér í kvöld fannst mér við svolítið óstöðugar í fyrri hálfleik. Vorum að leyfa þeim að fá of mikið af auðveldum körfum.
 
Það er ekki spurning að þessi vörn og að frákasta vel er lykillinn að titli fyrir okkur, við höfum verið að gera þetta vel í vetur og ætlum bara að halda því áfram. Varðandi leikinn í Hveragerði vil ég nú lítið segja um gengi okkar þar í vetur, það segir ekkert í leiknum á laugardag. Við bara gerum okkar besta og vonum að stigataflan sé okkur hagstæð í leikslok. Það lítur samt út fyrir að okkur líði vel á þessum útivelli en ég segi ekki meira en það.
 
Ágúst Björgvinsson – Hamar
 
Það er nú svolítið fyndið að vera ekki búinn að vinna KR á okkar eigin heimavelli þegar við höfum unnið þær þrisvar sinnum í vetur á útivelli. Skiptir það samt einhverju máli? Þetta er spurning um að mæta tilbúinn í leikinn því næsti leikur er eins og hver annar leikur, 40 mínútur, tvær körfur og jafn margir leikmenn þannig að við þurfum bara að ná því besta út úr okkur sjálfum og mæta tilbúnar í leikinn.
 
Ég trúi ekki öðru en það verði auðvelt að gíra mína leikmenn upp í næsta leik. Við þekkjum þessa stöðu vel og erum nýbúin að lenda í þessu gegn Keflavík og það var bara fyrir nokkrum dögum. Við tækluðum það með glæsibrag og við getum notað þá reynslu. Ef við leggjum allt okkar í leikinn þá eigum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af lokastöðunni. Það væri ósanngjarnt að segja að mínir leikmenn hefðu ekki lagt allt í sölurnar í síðustu tveimur leikjum því eins og í kvöld lögðum við mikið á okkur, það t.d. hallaði á okkur í fráköstum en við náðum að vinna okkur til baka í því og halda þeim nokkuð jöfnum í seinni hálfleik. Einföld atriði eins og sóknin og nokkur tækniatriði í vörninni voru að klikka of oft.
 
Benedikt Guðmundsson – KR
 
Markmiðið er einmitt þetta, að hafa andstæðingana okkar í kringum 60 stigin. Tölfræðin segir okkur það að við vinnum þegar við spilum vörn og töpum þegar við gerum það ekki. Það sem ég hef reynt að gera er að innleiða hörku varnarleik sem maður hefur m.a. stúderað af erlendum liðum. Það er mikil boltapressa, yfirdekkun og verið að djöflast en þetta er ekki leikur án nálægðar og ég bý svo vel að vera með hörku íþróttastelpur, leikmenn sem fara í frjálsar íþróttir á sumrin og geta spilað hörkuvörn og slædað hérna út í eitt og djöflast.
 
Leikirnir í Hveragerði hafa oftast verið hörkuleikir og það verður ekkert öðruvísi á laugardag og við eigum engan sigur vísan þar. Ég er virkielga ánægður með að leggja þær loksins hérna á heimavelli en þetta var fínt í dag.
 
Við höfum ekki afrekað eitt eða neitt til þessa og vitum að Hamar var 2-1 undir á móti Keflavík og fóru þangað og unnu með einhverjum 40 stigum, kláruðu síðan í oddaleik, svo við erum bara róleg því við eigum eftir erfiðan leik í Hveragerði og sjáum bara hvað setur.
 
Fréttir
- Auglýsing -