spot_img
HomeFréttirKörfuknattleiksakademía Hauka og Flensborgarskólans

Körfuknattleiksakademía Hauka og Flensborgarskólans

{mosimage}

Í vetur verður starfrækt körfuknattleiksakademía Hauka í samstarfi við Flensborgarskólann. Hugmyndina fengu þeir Sverrir Hjörleifsson og Ágúst Björgvinsson þjálfari meistaraflokks kvenna í Haukum. Reifuðu þeir hugmyndina við þá Einar Birgi Steinþórsson og Magnús Þorkelsson, skólameistara og aðstoðarskólameistara í Flensborg, og tóku þeir mjög vel í þessa hugmynd. 

Akademían er þannig upp byggð að nemendurnir mæta tvisvar til þrisvar í viku fyrir skóla þar sem tækniatriði, skotæfingar og almennar einstaklingsæfingar eru teknar undir handleiðslu Ágústs. Nemendurnir fá einnig lyftingaráætlun sem þau geta ráðið hvenær þau gera, hvort sem það er eftir skóla eða þegar eyður eru í stundatöflunni. Flensborg verður svo með bóklega tíma fyrir körfuknattleiksfólkið þar sem farið verður m.a. í skyndihjálp, næringafræði og íþróttameiðsl. Fyrir þetta fá nemendurnir einingar sem telja til stúdentsprófs. 

Nú strax í byrjun eru 16 nemendur í akademíunni, 11 stelpur og 5 strákar. Ekki er nauðsynlegt að vera í Haukum, t.a.m. er einn strákur úr Breiðablik í akademíunni, eina skilyrðið er að vera í Flensborg. Munu nokkrir hafa skipt um skóla til þess að komast í þessa akademíu og þó nokkrir hafa sýnt áhuga á að koma í Flensborg eftir áramót til þess að fá að vera í körfuknattleiksakademíunni. „Þetta er bara hugmynd sem við vorum búnir að vera með í maganum í nokkurn tíma,“ segir Ágúst. „Við erum að þessu til þess að hlúa betur að okkar efnilegustu körfuknattleiksmönnum og konum. Við munum byrja af krafti og svo minnkar álagið þegar Íslandsmótið byrjar en auk þess að vera í þessum einstaklingsæfingum eru krakkarnir að æfa með sínum flokkum á kvöldin.“ 

Þetta er í raun þriðja körfuknattleiksakademían á Íslandi því fyrir er akademía í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ og í Fjölbrautarskóla Suðurlands. 

Mynd: Ágúst Björgvinsson hefur náð frábærum árangri með Haukastelpurnar sem eru Íslands- og bikarmeistarar. Ágúst hafnaði á dögunum boði um að gerast aðstoðarþjálfari hjá liði í Litháen en hefur ekki lokað á þann möguleika að þjálfa erlendis.

 

 Frétt og mynd af www.vikurfrettir.is

Fréttir
- Auglýsing -