Það verður mikið um dýrðir í Laugardalshöll næstkomandi laugardag er Paralympics-dagurinn fer fram. Dagurinn er orðinn árleg hefð þar sem fara fram kynningar á íþrótta- og lýðheilsustarfsemi fatlaðra á Íslandi. Samkvæmt frétt Hvata, tímarits Íþróttabandalags fatlaðra verður einn af hápunktum helgarinnar kynning Special Olympics körfuboltahóps Hauka.
Í frétt ÍF segir:
„Við erum mjög spennt fyrir Paralympic-deginum og að fá tækifæri til að kynna körfubolta fyrir áhugasama og starfinu sem við bjóðum upp á hjá Haukum. Haukar körfubolti Special Olympic hópurinn var stofnaður fyrir 5 árum og hefur stækkað mikið síðan þá. Á fyrstu æfingunni okkar vorum við með þrjá iðkendur og í dag eru yfir 30 krakkar að æfa hjá okkur, á aldrinum 6-16 ára,“ sagði Bára Fanney Hálfdánardóttir en hún stýrir hópnum.
„Planið okkar á Paralympic deginum er að vera með körfu, nokkra bolta og setja upp smá þrautabraut svo fólk getur prófað að drippla, skjóta á körfu og fleira, fá smá tilfinningu fyrir því sem við erum að gera á æfingum,“ sagði Bára sem sjálf á að baki farsælan feril með Haukum.
„Körfubolti er svo skemmtileg íþrótt og hentar vel fyrir fjölbreytta hópa. Það er svo gaman að vera hluti af liði og flottur vinskapur hefur myndast á milli krakkana. Við erum líka með sterkan foreldrahóp sem tekur virkan þátt sem hvatningarlið á hliðarlínunni og aðstoða með viðburði utan æfingatíma t.d. horfa saman á körfuboltaleiki, grillveislur og fleira“.
Mynd/ Heimasíða ÍF