KKÍ sýndi á dögunum mynd af 10 körfuboltahjólastólum sem til landsins eru komnir, en þeir eru þeir fyrstu sem komið hafa til landsins. Stólunum er ætlað fyrir börn 7 til 14 ára og verða notaðir er boðið verður upp á hjólastólakörfubolta fyrir þennan aldur eftir áramótin.
Samkvæmt tilkynningu KKÍ með myndinni hafa tvö félög lýst áhuga á að bjóða upp á þessar æfingar. Verkefnið er tengt verkefninu Allir með, en það gengur útá að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn í íþróttum. Kannanir sýna að einungis 4% fatlaðra barna 17 ára og yngri eru í virku íþróttastarfi, með Allir með verkefninu er stefnt að því að breyta þessu og fjölga fötluðum börnum í íþróttastarfinu. Allar frekari upplýsingar um Allir með verkefnið veitir Valdimar Smári Gunnarsson [email protected]
Stólarnir verða geymdir í lokaðri kerru sem gefur tækifæri á því að ferðast með stólana og bjóða upp á æfingar á fleirum en einum stað. Marel aðstoðar með að hanna búnað í kerruna þannig að allir stólarnir komast fyrir án þess að þurfa að taka þá í sundur. Með tilkomu stólanna verður hægt að bjóða börnum sem bundin eru hjólastól upp á að stunda íþróttaæfingar.