Biðin er loks á enda, keppni í NBA deildinni hefst í nótt og við erum að tala um stórslag Miami Heat og Chicago Bulls. Þá er leikurinn á vesturströndinni ekki af verri gerðinni þegar Clippers og Lakers mætast í Staples Center. Sterkur hópur Indiana mætir svo til leiks þegar Orlando Magic mæta í heimsókn. Við sláum nú botn í spá Karfan.is fyrir NBA deildina og sem fyrr er það Hannes Birgir Hjálmarsson sem reifar málin og nú og að endingu tekur hann fyrir Kyrrahafsriðilinn.
Vesturdeildin
Kyrrahafsriðill
Að öllum líkindum munu tvö lið bera af í Kyrrahafsriðlinum í ár Golden State Warriors og Los Angeles Clippers! Já Clippers sigra L. A. í ár!
1. Golden State Warriors
Warriors náðu í Andre Iguodala í sumar en hann er einn af sterkari varnarmönnum deildarinnar og ekki slakur sóknarmaður. Einn mesti skorari deildarinnar Steph Curry mun ásamt þeim Klay Thompson, Harrison Barnes, David Lee og Ástralinn ógurlegi Andrew Bogut sem er frábær miðherji skipa eitt skemmtilegasta sóknarlið deildarinnar sem verður skemmtilegt að horfa á í vetur. Vörnin gæti haldið aftur af liðinu þegar í úrslitakeppnina kemur en ég spá liðinu góðu gengi yfir leiktíðina og 60 sigrum!
2. Los Angeles Clippers
Það er búist við miklu af Clippers liðinu í vetur eftir að liðið náði í Doc Rivers sem þjálfara og lið með Chris Paul og Blake Griffin er vel þess virði að horfa á. Ekkert annað en sigur í Vesturdeildinni er á dagskrá liðins en yfir tímabilið hefur Golden State betur, hvað sem kann svo að gerast í úrslitakeppninni. Paul er einhver allra besti leikstjórnandi deildarinnar og ef vörnin batnar hjá liðinu gæti liðið farið alla leið! Rivers verður þá að fá framlag frá leikmönnum eins og DeAndre Jordan, J. J. Redick og Jared Dudley auk þess sem Griffin verður að stíga skrefið til fulls og verða stórstjarna! Clippers liðið verður feiknaskemmtilegt á að horfa í vetur og bætir sig um þrjá sigurleiki frá síðasta tímabili og vinnur 59 leiki.
3. Los Angeles Lakers
Kobe Bryant og Pau Gasol munu leiða liðið í vetur en það mun duga skammt og ef engar breytingar (leikmannaskipti) eiga sér stað verður erfitt fyrir liðið að komast í úrslitakeppnina. Gamli maðurinn Steve Nash virðist aðeins farinn að lýjast og er ekki sá frábæri leikstjórnandi sem hann var auk þess sem aðrir leikmenn verða að spila vörnina fyrir hann. Hvenær Kobe byrjar að spila eftir hásinaslitin er óvist en hann er náttúrulega lykillinn að gengi liðsins í vetur! Veturinn verður erfiður liðinu með óbreytt lið og sæti í úrslitakeppninni ólíklegt. Konungar Englaborgarinnar verða Clippers þetta árið en Lakers liðið vinnur þó helming leikja sinna og endar því með 41 sigur á leiktíðinnni.
4. Sacramento Kings
Stóru fréttirnar af Kings eru að þeir eru ennþá í Sacramento og komnir með nýja eigendur! Liðið fékk til sín Greivis Vasquez leikstjórnanda sem dreifir knettinum vel og héldu í DeMarcus Cousins sem er fullur af hæfileikum en hefur ekki sýnt þroska sem þarf til að verða stórstjarna í NBA deildinni. Aðdáendur (og eigendur) liðsins vonast til að hann fari nú að sýna þann þroska á þessu tímabili. Úrslitakeppnin verður þó enn bara draumur því Sacramento verður á svipuðu róli og á síðustu leiktíð en bætir sig um tvo sigurleiki og vinna 30 sinnum.
5. Phoenix Suns
Nýliðavalið er fyrirheitna landið hjá Suns eftir þetta tímabil og liðið verður hugsanlega með lakasta vinningshlutfall deildarinnar! Phoenix var með lélegasta árangur Vesturdeildarinnar síðastliðið leiktímabil og munu berjast um þá nafnbót aftur í ár við Utah Jazz. Liðið losaði sig við Luis Scola, Jared Dudley og Michael Beasley en fékk til sín einn af skemmtilegri “vara” leikstjórnendum deildarinnar í Eric Bledsoe og eru víst að stefna að því að prófa að spila með tvo leikstjórnendur í byrjunarliðinu þá Bledsoe og Goran Dragic sem var stigahæsti leikmaður liðsins síðastliðið tímabil auk þess að gefa flestar stoðsendingar og stela flestum boltum! Channing Frye er að hefja körfuknattleiksiðkun á ný eftir að læknar gáfu grænt ljós en hann lék ekkert síðasta tímabil vegna of stórs hjartavöðva, athyglisvert verður að sjá hvort hann nái fyrri styrk. Suns stefna leynt og ljóst að því að verða ofarlega í nýliðavalinu eftir tímabilið og þeir enda einum sigri fyrir ofan Utah með 21 sigurleik.
Lið sem komast í úrslitakeppnina úr Vesturdeild:
Houston Rockets
Oklahoma City Thunder
Golden State Warriors
Los Angeles Clippers
San Antonio Spurs
Memphis Grizzlies
Minnesota Timberwolves
Denver Nuggets
Tengt efni: