Kobe Bryant, aðalstjarna meistaraliðs LA Lakers, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við liðið að sögn fjölmiðla vestanhafs. Hann tekur þannig af öll tvímæli um framtíð sína, en hann hafði möguleika á því að segja upp síðasta ári samnings síns í sumar.
Bryant mun, að því er fréttir herma, fá um 90 milljónir dala fyrir árin þrjú, en fæstir bjuggust við öðru en að hann myndi semja upp á nýtt við liðið, enda mikill efniviður í liðinu sem ætti að geta barist um meistaratitla þessi þrjú ár.
Bryant verður 32ja ára síðar á þessu ári og hefur verið í deildinni í 14 ár. Hann hefur unnið fjóra meistaratitla með Lakers og var valinn MVP árið 2008. Samband hans við Jerry Buss, eiganda liðsins og aðra forsvarsmenn þess var í miklu uppnámi árið 2007 þegar ekkert gekk hjá liðinu og hann bað um að verða skipt burtu. Það breyttist þó fljót og með tilkomu Pau Gasol hefur liðið fest sig í sessi sem eitt sterkasta lið deildarinnar.
Kobe hefur verið á hraðferð upp metatöflur NBA deildarinnar og LA Lakers liðsins og fór t.d. fram úr læriföður sínum Jerry West sem stigahæsti maður liðsins fyrr í vetur. Hann hefur greinilega ekki sagt sitt síðasta orð í þeim efnum og verður að öllum líkindum að elta meistaratitla í Gulu og fjólubláu það sem eftir lifir ferilsins.
H: Yahoo! Sports