Njarðvík hafði betur gegn Stjörnunni eftir framlengingu í IceMar höllinni í kvöld í 15. umferð Bónus deildar kvenna.
Eftir leikinn er Njarðvík í 3. til 4. sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Keflavík á meðan Stjarnan er í 6. til 7. sætinu með 12 stig líkt og Valur.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn á upphafsmínútunum þó heimakonur hafi oftar en ekki verið nokkrum stigum á undan og eftir fyrsta fjórðung munaði aðeins stigi á liðunum, 24-23. Undir lok fyrri hálfleiks nær Njarðvík þó nokkuð góðum tökum á leiknum og ná að vera skrefinu á undan til búningsherbergja í hálfleik, 47-39.
Heimakonur halda forystu sinni inn í seinni hálfleikinn, en Stjarnan gerir vel að missa þær ekki lengra frá sér og undir lok þriðja fjórðungs ná þær að koma bilinu niður í fjögur stig fyrir lokaleikhlutann, 62-58. Leikurinn er svo gífurlega spennandi fram á lokamínúturnar og er það Denia Davis Stewart sem tryggir Stjörnuna í framlengingu á lokasekúndunum, 84-84.
Segja má að framlengingin hafi verið eign heimakvenna. Þær byggja hægt og bítandi upp forskot sitt og vinna leikinn að lokum með átta stigum, 101-93.
Atkvæðamest fyrir Njarðvík í leiknum var Brittany Dinkins með 48 stig, 11 fráköst, 11 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bætti Emilie Hesseldal við 12 stigum, 15 fráköstum og 7 stoðsendingum.
Fyrir Stjörnuna voru atkvæðamestar Ana Clara Paz með 23 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og Denia Davis Stewart með 19 stig og 17 fráköst.