spot_img
HomeFréttirKjartan Atli: Vorum að vona að tapið gegn KR væri nóg

Kjartan Atli: Vorum að vona að tapið gegn KR væri nóg

22:36
{mosimage}

(Kjartan Atli Kjartansson)

Skotbakvörðurinn Kjartan Atli Kjartansson gerði 20 stig og tók 9 fráköst fyrir Stjörnuna sem mátti í kvöld þola sinn annan deildarósigur í röð eftir að hafa fagnað Subwaybikarmeistaratitlinum fyrir skemmstu. Í kvöld lá Stjarnan 84-96 gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur sem voru sjóðheitir á lokasprettinum.

,,Nei þetta ætlar ekki að hafast hjá okkur gegn Keflavík en þetta hlýtur að koma einhvern tíman,“ sagði Kjartan Atli í leikslok en Stjarnan hefur aldrei unnið Keflavík á þeim þremur árum sem liðið hefur leikið í úrvalsdeild. ,,Við komust voðalega lítið í takt við leikinn í kvöld og við létum svæðisvörnina þeirra slá okkur út af laginu en svo fóru skotin okkar að detta niður þá skiptu þeir í maður á mann vörn og slógu okkur aftur út af laginu,“ sagði Kjartan sem hélt að einn ósigur eftir bikarúrslitin væri nóg!

,,Já við vorum að vona að tapið gegn KR eftir bikarinn væri nóg en ég ætla að rétt að vona að við náum að koma okkur niður á jörðina því við eigum stórleik á mánudag og það verður sannkallaður nágrannaslagur,“ sagði Kjartan en þá mætast Breiðablik og Stjarnan í Smáranum í Kópavogi.

,,Við eigum enn möguleika á 5. sætinu í deildinni þar sem Njarðvík tapaði gegn KR en við vitum að það er líka inn í myndinni að missa af úrslitakeppninni svo hver leikur er úrslitaleikur fyrir okkur en svona á deildin að vera, jöfn, því það er það sem fólk vill sjá,“ sagði Kjartan.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -