spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKjartan Atli: Fannst við vera betra liðið í kvöld

Kjartan Atli: Fannst við vera betra liðið í kvöld

Álftnesingar höfðu betur gegn Grindavík í kvöld í 7. umferð Bónus deildar karla í Forsetahöllinni, 90-88. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 3. til 7. sæti deildarinnar með fjóra sigra og tvö töp líkt og Keflavík, Njarðvík og Þór.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara Álftaness Kjartan Atla Kjartansson eftir leik.

Nú fannst mér þú og þínir menn fara ránshendi um Vellina í síðasta leik…ég vorkenndi Haukunum alveg voðalega…

…jájá…ég sá það á pistlinum! Og sammála mörgu…

…þið áttuð það tæplega skilið að fá stig úr þeim leik, en þið áttuð skilið að vinna þennan leik! Og honum var næstum því stolið frá ykkur, ég hélt að karmað myndi bíta í ykkur í kvöld.

Mér fannst við vera betra liðið í kvöld. Grindavík er bara þannig lið að það eru alltaf 1, 2 eða jafnvel 3 endurkomur í Grindavíkurliðinu. Þetta snýst svolítið um það að standa af sér storminn og sætta sig við að það er flöt rigning í andlitið á þér í svolítinn tíma og svo þarftu að arka í gegnum það óviðri.

Jájá. Þið leiðið fyrstu 32 mínúturnar með í kringum 10 stigum…en náið aldrei að slíta ykkur frá þeim, það hefur kannski verið pínu pirrandi?

Já, við fengum alveg sénsana, en þeir gerðu líka bara vel. Eftir að Kane kom til þeirra þá hefur Grindavík verið stöðugasta og eitt besta liðið, þeir hafa verið með fleiri flotta leikmenn og góða taktík, það er erfitt að slíta svona góð lið frá sér.

Einmitt, þó þetta hafi kannski ekki verið neitt sérstaklega góður leikur hjá þeim þá hanga þeir einhvern veginn í þessu samt…

…þeir geta sett boltann ofaní körfuna sem á ensku kallast ,,shot making ability“ sem er erfitt að eiga við. En lið spila bara eins vel og andstæðingurinn leyfir, þetta gamla góða…

…já þú ert væntanlega ánægður með þína menn meira og minna, varnarleikurinn var solid og sóknarleikurinn gekk býsna vel, yfir litlu að kvarta?

Já, það var helst að við vorum að brjóta mikið á þeim og þeir fóru mikið á línuna…

…einmitt, það var það sem hélt þeim hreinlega inn í leiknum á köflum.

Algerlega. Mest allar róteringar í vörninni voru góðar. Mig langar til að hrósa Hjalta Vilhjálms sérstaklega, hann fékk frábærar hugmyndir og setti upp gott varnarplan sem við nýttum okkur vel í kvöld og strákarnir voru vel innstilltir. Það er þvílíkur fengur að hafa svona mann við hliðina á sér.

Akkúrat. að lokum…nú hafið þið tekið fjóra í röð, þvílíkur viðsnúningur! En hver er stefnan hjá Álftanesi, gerið þið ykkur t.d. vonir um að ná topp fjórum eða?

Sko…þessi deild er náttúrlega bara svo galin! Það eru öll lið að vinna hvert annað og kroppa hvert af öðru. Fyrir mér snýst þetta bara um að reyna að byggja eitthvað upp og svo þarftu bara að sjá hvar þú stendur þegar tekur að vora. Við höfum oft séð lið vera svona að átta sig á því hver þau eru framan af móti og fundið það út þegar tekur að vora og komið af krafti inn í úrslitakeppnina en það er rosalega erfitt að plana það á einhvern hátt. Við erum með fullt af hæfileikaríkum leikmönnum og við erum að læra inn á hvern annan og það tekur bara tíma. Við gerðum breytingar hérna rétt fyrir mót þegar Okeke kom inn í liðið og hefur komið mjög vel inn í liðið, hann hefur verið frábær, svo kemur bikarinn inn í þetta svo það hefur verið lítill tími til að bæta hlutum við en núna náum við kannski aðeins að anda.

Svo var þetta náttúrulega þannig að við vorum að tapa þarna jöfnum leikjum og tilfinningar í því. Við höfum eiginlega bara verið í spennandi leikjum og það er sem þetta snýst svolítið um, fólkið elskar þetta! Svo sérðu stemmninguna sem er hérna og hvað margir eru að taka þátt í þessu. Það er það sem þetta í rauninni snýst um – þegar þú spyrð hver stefna Álftanes er þá er hún bara sú að halda áfram að vaxa sem klúbbur, við erum með öflugt yngri flokka starf, það er komið hrikalega flott meistaraflokksráð hérna inn. Það er bara orðinn stór viðburður fyrir fólk hérna í byggðarlaginu að koma á leikdegi, alltaf að koma nýtt og nýtt fólk með okkur í þetta…

Já…það er smá svona landsbyggðarstemmning yfir þessu hjá ykkur…?

Já, það er landsbyggðarstemmning í þessu og þetta er rosa gaman. Ég er alinn upp hérna sem gefur mér extra en það eru þá líka extra miklar tilfinningar í þessu stundum! En hvað varðar deildina, við sjáum bara hvernig við náum að þróast sem lið. Ég er svona eins og stjórnmálamaður sem neitar að svara spurningunni en svarar samt í löngu máli! En það er staðan núna og svo sjáum við hvert leikplanið, leikmannahópurinn, æfingarnar og annað flytur okkur þegar upp er staðið. Það er mikið eftir af mótinu.

Þið gangið óbundnir til tímabilsins má segja!?

Já! Það má svo sannarlega segja það!

Fréttir
- Auglýsing -