Elvar Már Friðriksson og félagar hans í PAOK Saloniki mættu erkifjendum sínum í Aris Saloniki í kvöld. Karfan.is skellti sér á leik og upplifun engu lík. Leikurinn sem slíkur er einn af allra alræmdustu nágrannaslagsleikjum Evrópu. Leikurinn hefur að öllu jöfnu hafist á því að stuðningsmenn liðana henda inn á völlinn ýmist klósettpappír eða annarsskonar pappír. Engin undantekning var á því í kvöld og stemmningin hreint út sagt ólýsanleg og undirritaður aldrei upplifað annað eins.
En leikurinn sjálfur skrítinn að því leyti að PAOK leiddi með 20 stigum í hálflleik og enduðu svo að landa sigrinum rétt á loka kafla leiksins eftir hörku seinni hálfleik hjá gestunum. Það fer ekki á milli mála að Elvar er mikilsmetin hér í Thessaloniki og stýrði hann leik PAOK af mikilli festu en hann skilaði 12 stigum, tók 3 fráköst og sendi 4 stoðsendingar í kvöld.
Heimamenn fögnuðu gríðarlega í leikslok og dingluðu lyklum sínum þar sem þeir vísuðu í að þeir hafa lyklana að borginni.
Elvar mætti að sjálfsögðu í viðtal eftir leik þar sem hann sagði þessa stemmningu sem han hafi upplifað hafa verið einstaka og eitthvað sem hann hefur aldrei upplifað áður. “Maður horfði á þetta sem gutti á youtube og óskaði sér einn daginn að upplifa þetta.” sagði Elvar í samtali eftir leik og viti menn, óskir rætast!
Að öðru þá sagði Elvar liðið hafa farið í það að verja forystu í seinni hálfleik og það hafi orðið til þess að leikurinn hafi orðið svo jafn á loka sprettinum.
Undirritaður varð vitni af því þegar vara forseti liðsins lofaði Elvar að hann fengi Porche bifreið hans til afnota næstu daga ef sigur yrði raunin í kvöld. Sigur varð það og Elvar sagði eftir leik. “Skúli við erum að fara að keyra heim á Porsche á eftir.”