spot_img
HomeFréttirKennslustund í Keflavík

Kennslustund í Keflavík

 
Keflavík leiðir úrslitaeinvígið gegn Snæfell 1-0 eftir stórsigur í fyrsta leik liðanna. Lokatölur voru 97-77 Keflavík í vil sem tóku forystuna snemma í leiknum og litu aldrei til baka. Ótrúlegt andvaraleysi var að sjá í herbúðum Hólmara á meðan Keflvíkingar mættu einbeittir til leiks og tóku gesti sína í kennslustund. Þrír leikmenn Keflavíkur voru jafnir og stigahæstir með 20 stig í leiknum en það voru þeir Hörður Axel Vilhjálmsson, Draelon Burns og Urule Igbavboa. Urule var einnig með 10 fráköst í leiknum. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur í liði Snæfells með 22 stig og 13 fráköst. Liðin mætast svo í sínum öðrum úrslitaleik í Stykkishólmi næsta fimmtudag kl. 19:15. 
Snæfell opnaði leikinn 0-5 eftir þriggja stiga körfu frá Jóni Ólafi Jónssyni en heimamenn voru fljótir að svara og komust snöggtum í 11-7. Hörður Axel og Gunnar Einarsson voru grimmir í upphafi leiks. Eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 20-11 fyrir Keflavík og vörn Hólmara í molum, heimamenn höfðu ekki sagt sitt síðasta í fyrsta leikhluta og leiddu 32-23 að honum loknum og munurinn hefði verið 12 stig ef Martins Berkis hefði ekki sett þrist fyrir Snæfell úr erfiðri aðstöðu þegar ein sekúnda var eftir af leikhlutanum.
 
Keflvíkingar tóku 7-0 áhlaup í upphafi annars leikhluta og leiddu 43-30 þegar Ingi Þór tók leikhlé fyrir gestina eftir glæsilega troðslu frá Jóni N. Hafsteinssyni. Keflvíkingar skelltu sér í svæðisvörn stutta stund en það varði ekki lengi. Hólmarar voru að frákasta ágætlega og þá sérstaklega í sókninni en skotnýting þeirra var miður góð í kvöld gegn sterkri vörn Keflavíkur. Keflavík leiddi svo 53-41 þegar liðin gengu til hálfleiks.
 
Hörður Axel Vilhjálmsson var kominn með 15 stig hjá Keflavík í leikhléi en Hlynur Bæringsson var með 15 stig og 8 fráköst í liði Snæfells.
 
Keflavík byrjaði síðari hálfleikinn 7-2 þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson kom með myndarlega syrpu, fyrst troðslu og svo þriggja stiga körfu og staðan orðin 60-43. Hólmarar voru víðsfjarri sínu besta og eftir tvo þrista með skömmu millibili frá Draelon Burns var staðan orðin 74-53 Keflavík í vil. Gunnar Stefánsson átti svo lokaorðin í leikhlutanum með tvo þrista til viðbótar fyrir Keflvíkinga sem leiddu 82-59 fyrir fjórða leikhluta og eftir fyrstu 30 mínútur leiksins var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.
 
Sean Burton lék rúmar 18 mínútur í leiknum og gerði 6 stig í tveimur þriggja stiga skotum. Burton glímir við meiðsli og þarf að ná sér góðum enda er bakvarðapressa Keflavíkur ekkert lamb að leika sér við og sást það nokkrum sinnum í kvöld að þeir Pálmi, Berkis og Sigurður Þorvaldsson voru nokkrum sinnum þröngvaðir í vandræði af ákveðinni vörn Keflavíkur.
 
Á lokasprettinum fengu flestir leikmenn liðanna að spreyta sig og þegar um fimm mínútur voru til leiksloka kom Þröstur Leó Jóhannsson inn á í liði Keflavíkur. Þröstur hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið en hann náði að gera 2 stig í leiknum og taka 4 fráköst. Mikilvægt fyrir Keflavík ef þessi sterki leikmaður nær sér á strik í seríunni.
 
Fátt er hægt að segja annað um leik kvöldsins en að Keflavík hafi unnið verðskuldaðan yfirburðasigur á gestum sínum eins og lokatölurnar gefa til kynna. Þeir Draelon Burns og Hörður Axel voru illir viðureignar báðir með 20 stig og slíkt hið sama skoraði Urule Iagbova og tók auk þess 10 fráköst en Urule setti niður 9 af 10 teigskotum sínum í leiknum!
 
Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson með 22 stig, 13 fráköst og 6 stolna bolta en Sigurður Þorvaldsson var með 20 stig og 6 fráköst.
 
________________________________________________________________________
 
Byrjunarliðin:
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Draelon Burns, Gunnar Einarsson, Uruele Iagbova og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Hlynur Bæringsson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Eggert Aðalsteinsson
 
Ljósmynd/ Jón N. Hafsteinsson treður með tilþrifum í fyrri hálfleik.
 
Fréttir
- Auglýsing -