Íslandsmeistarar Keflavíkur höfðu betur gegn Val í 12. umferð Bónus deildar kvenna í Blue höllinni í kvöld, 79-65.
Eftir leikinn er Keflavík í 2.-5. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan Valur er í 6.-8. sætinu með 8 stig.
Heimakonur í Keflavík voru með góð tök á leik kvöldsins frá miðjum fyrsta fjórðung. Eftir fyrsta fjórðung leiddu þær með 15 stigum og þegar í hálfleik var komið var forskot þeirra 10 stig.
Í upphafi seinni hálfleiks nær Valur að bíta í skjaldarrendur og vinna forystu heimakvenna niður og eru þær komnar með eins stigs forystu fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða nær Keflavík þó fljótt að snúa taflinu aftur sér í vil. Leiða með 7 stigum þegar fimm mínútur eru til leiksloka og bæta svo enn í á lokamínútunum. Niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur sigur Íslandsmeistara Keflavíkur, 79-65.
Atkvæðamestar í liði heimakvenna í leiknum voru Jasmine Dickey með 19 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og Sara Rún Hinriksdóttir með 14 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
Fyrir Val var Jiselle Thomas atkvæðamest með 15 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Henni næst var Alyssa Cerino með 15 stig og 7 fráköst.