spot_img
HomeBikarkeppniKeflvíkingar VÍS bikarmeistarar karla 2024

Keflvíkingar VÍS bikarmeistarar karla 2024

Keflavík varð í dag VÍS bikarmeistari karla eftir sigur gegn Tindastóli í úrslitaleik í Laugardalshöllinni, 79-92.

Fyrir leik

Bæði lið unnu undanúrslitaviðureignir sínar nokkuð örugglega. Keflvíkingar gegn Stjörnunni á meðan að Tindastóll hafði betur gegn Álftanesi. Það sem af var tímabili í Subway deildinni hafði Keflavík gengið betur, í 3.-4. sætinu með 28 stig líkt og Grindavík, en Tindastóll að berjast um sæti í úrslitakeppni, í 7. sætinu með 20 stig.

Bikarsaga liðanna tveggja nokkuð ólík. Keflavík í 10 skipti farið í úrslit og sigrað keppnina í 6 skipti, síðast eftir úrslitaleik gegn Tindastóli árið 2012. Stólarnir hinsvegar aðeins farið tvisvar áður í úrslit, Keflavíkurtapið 2012 og svo unnu þeir keppnina 2018 með sigri gegn KR í úrslitaleik.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og ljóst var frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu að selja sig eins dýrt og þau gátu. Einkenni liðanna tveggja komu einnig fram strax á upphafsmínútunum þar sem Stólarnir voru gífurlega fastir fyrir og Keflvíkingar leyfðu þristunum að rigna. Munaði ekki nema stigi á liðunum eftir fyrsta leikhluta, 22-21. Leikurinn er áfram í járnum í 2. leikhlutanum, þar sem Ragnar Ágústsson á frábæra innkomu fyrir Stólana, en líkt og í upphafi leiks er það Jaka Brodnik sem ber uppi stigaskorun Keflavíkur. Liðin skiptast á körfum út fjórðunginn og er það Tindastóll sem er skrefinu á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-42.

Þessi fyrri hálfleikur leiksins var að mörgu leyti nokkuð merkilegur fyrir hversu jafn hann var, mest leiddi Keflavík með 4 stigum í honum á meðan að mesta forysta Tindastóls var 3 stig. Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Jaka Brodnik með 16 stig á meðan að Callum Lawson var kominn með 11 stig fyrir Tindastól.

Adomas Drungilas opnar seinni hálfleikinn með 6 stigum í röð fyrir Stólana og þeir komast í sína mestu forystu í leiknum, 50-42. Stólarnir ná að framlegja þetta áhlaup sitt og ná þægilegri forystu fyrir miðjan þriðja leikhluta, 61-49. Með miklu harðfylgi nær Keflavík þó að berjast aftur inn í leikinn og með nokkrum ótrúlegum sóknum í röð frá Remy Martin eru þeir komnir 6 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 67-73. Stólarnir á þessum tímapunkti í leiknum komnir í mikil villuvandræði, þar sem Adomas Drungilas, Davis Geks og Ragnar Ágústsson voru allir komnir með 4 villur.

Í þeim fjórða heldur Keflavík áfram að hamra járnið og ná þeir mest 14 stiga forystu í upphafi fjórðungsins. Eftir gott leikhlé ná Stólarnir þó að spyrna við fótum og er munurinn í 8 stigum þegar rúmar 3 mínútur eru til leiksloka. Stórar körfur undir lokin frá Marek Dolezaj og Remy Martin innsigla svo að lokum sterkan, en nokkuð þægilegan sigur Keflavíkur, 79-92.

Hver var munurinn?

Stólarnir leyfðu sér að spila alltof fast lengi vel framan af leik. Fengu að launum mjög takmarkaðan spilatíma frá nokkrum leikmanna sinna, sveið kannski mest hvað þeir fengu lítið af Adomas Drungilas í leiknum, sem þó var frábær á þeim mínútum sem hann spilaði. Keflavík nýtti sér þetta vel, fóru oft á línuna þar sem þeir fengu 18 stig á móti aðeins 5 sem Stólarnir settu af gjafalínunni. Undir lokin má einnig segja að sóknarleg gæði Keflavíkur hafi verið meiri en Stólana, þar sem þrennan af Remy Martin, Jaka Brodnik og Marek Dolezaj fór langt með þá. Þá má einnig nefna Sigurð Pétursson sem barðist eins og ljón frá fyrstu mínútu til enda leiks á báðum endum vallarins.

Atkvæðamestir

Remy Martin var atkvæðamestur í liði Keflavíkur í leiknum með 23 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar. Honum næstur var Jaka Brodnik með 22 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanleg / Márus Björgvin)

Viðtöl birt upphaflega á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -