22:20
{mosimage}
(Hörður Axel átti flotta spretti með Keflavík í kvöld)
Bikarmeistarar Stjörnunnar tóku í kvöld á móti Keflvíkingum í Ásgarði. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið en Stjarnan er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni á meðan Keflvíkingar berjast við Snæfell um 3.sæti deildarinnar. Það mátti því búast við hörkuleik í Garðabænum.
Leikurinn byrjaði heldur rólega og Keflvíkingar spiluðu vel í upphafi leiks. Suðurnesjapiltar komust fljótlega í sex stiga forystu og spiluðu ágætis vörn. Stjörnumenn börðust þó ágætlega og voru ekki langt undan gestunum. Liðin buðu þó upp á heldur tilþrifalítinn körfubolta og staðan eftir fyrsta fjórðung var 19-25, Keflvíkingum í vil.
Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Keflvíkingar virtust hafa yfirhöndina en Stjörnumenn náðu þó að halda sér í leiknum með ágætis baráttu. Ólafur Sigurðsson átti fína innkomu í lið Stjörnunnar en barátta hans skilaði Garðbæingum nokkrum stolnum boltum og náði Stjarnan að saxa á forystu Keflvíkinga og koma henni í fjögur stig. Þá tók við góð rispa hjá Keflvíkingum og þeir kláruðu fyrri hálfleik sterkt og leiddu 40-49.
Þriðji fjórðungur byrjaði á nákvæmlega sama hátt og þeir tveir sem á undan komu. Keflvíkingar virtust spila betri bolta en enn og aftur börðust heimamenn grimmilega. Um miðjan fjórðung tóku Stjörnumenn svo frábæra rispu þar sem Kjartan Kjartansson kom þeim sex stigum yfir með þremur þriggja stiga körfum í röð. Keflvíkingar létu þó ekki á deigan síga og minnkuðu muninn í eitt stig fyrir lokaleikhlutann, 69-68 og allt útlit fyrir spennandi lokamínútur.
Sú varð þó ekki raunin en Keflvíkingar hreinlega kafsigldu heimamenn í lokaleikhlutanum. Gestirnir skoruðu fjölmargar þriggja stiga körfur á meðan Stjörnumönnum tókst illa að finna sína fjöl. Niðurstaðan tólf stiga sigur Keflvíkinga sem var þó helst til of stór ef tekið er mið af gangi leiksins. Góður var sigurinn þó engu að síður og halda Suðurnesjamenn enn þá í vonina um að ná Snæfelli í 3.sæti. Stjörnumenn eru í sjötta sæti með sextán stig og eygja sæti í úrslitakeppni. Stigahæstur Keflvíkinga var Hörður Axel Vilhjálmsson með 20 stig og hjá Stjörnunni var Kjartan Atli Kjartansson stigahæstur, einnig með 20 stig.
Texti: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: [email protected]
{mosimage}