Keflavík lagði Njarðvík nokkuð örugglega með 15 stiga mun í gærkvöldi í unglingaflokki kvenna. Leikið var í Ljónagryfjunni í Njarðvík og voru lokatölur 61-76. Leikurinn var hraður og skemmtilegur en mikið var um mistök, sérstaklega í upphafi og var á köflum eins og bæði lið héldu að þau hefðu aðeins 10 sekúndna skotklukku!
Keflavík náði undirtökunum í fyrsta leikhluta og leiddu með 4 stigum, 16-20 eftir fyrsta fjórðung. Sara Rún Hinriksdóttir var með 8 stig á þessum kafla og gekk Njarðvíkurstúlkum illa að eiga við hana og Ásdís Vala Freysdóttir var drjúg fyrir Njarðvík, með 6 stig.
Keflavíkurdömur bættu svo við forskotið í öðrum leikhluta og þótt Ína María Einarsdóttir hafi gert tvo þrista með stuttu millibili, var kominn 9 stiga munur 27-36. Þó að Sara Rún hafi verið í nokkrum sérflokki hjá Keflavík, var liðið annars gríðarlega jafnt og voru t.d. átta leikmenn komnir á blað hjá þeim í fyrr hálfleik. Í raun hvergi veikur hlekkur og liðið að spila hörku vörn þar sem helstu leikmenn Njarðvíkur voru yfirdekkaðir á löngum köflum. Ingunn Embla Kristínardóttir fór þar mikinn fyrir Keflavík. Hjá Njarðvík komust reyndar einnig átta leikmenn á blað áður en yfir lauk og því ágætis breidd einnig þar á bæ.
Keflavík gerði svo 6 fyrstu stigin í seinni hálfleik og var þar að verki Sandra Lind Þrastardóttir, sem gerð þau öll. Munurinn þegar hér var komið við sögu orðinn 15 stig, 27-42. Héldu nú flestir að eftirleikurinn yrði auðveldur, en það var nú aldeilis ekki. Njarðvíkurdömur spíttu í lófana og skelltu þær 3 þristum í röð. Fyrst Eyrún Líf Sigurðardóttir með tvo og síðan Guðlaug Björt Júlíusdóttir einn. En Keflavík stóðst áhlaupið og hleyptu þeim grænu ekki lengra og sigruðu að lokum nokkuð örugglega eins og áður sagði.
Í raun var þriðji leikhluti, sem endaði 17-20, virkilega skemmtilegur á að horfa og mörg skemmtileg tilþrif sáust. Það er greinilega engin tilviljun að margar af þessum stelpum leika orðið lykilhlutverk hjá meistaraflokkum liða sinna.
Bæði lið voru að spila ágætis bolta og baráttan var til fyrirmyndar. Njarðvík var að hitta vel fyrir utan og gerðu m.a. 6 þriggja stiga körfur en Keflavík gerði mjög vel með flottu „inside“ spili og gerðu þannig ófáar auðveldar körfur. Eins skoraði Keflavík mikið eftir sóknarfráköst, enda mun hávaxnari en stöllur þeirra í Njarðvík. Spurning hvort athuga þurfi skólamáltíðirnar hjá bænum?
Sem fyrr er alltaf mikið af áhorfendum á þessum leikjum hjá stelpunum og myndast oft fín stemning. Sú var líka raunin í gær.
Njarðvík – Keflavík 61-76 (16-20, 11-16, 17- 20, 17- 20)
Njarðvík: Guðlaug Björt Júlíusdóttir 16, Eyrún Líf Sigurðardóttir 12, Ásdís Vala Freysdóttir 11, Ína María Einarsdóttir 6, Sara Dögg Margeirsdóttir 6, Emelía Ósk Grétarsdóttir 4, Þuríður Birna Björnsdóttir 4 og Erna Hákonardóttir 2.
Keflavík: Sara Rún Hinriksdóttir 27, Sandra Lind Þrastardóttir 18, Telma Lind Ásgeirsdóttir 9, Ingunn Embla Kristínardóttir 8, María Ben Jónsdóttir 6, Bríet Sif Hinriksdóttir 4, Katrín Jóhannsdóttir 2 og Aníta Eva Viðarsdóttir 2.
Mynd/ Úr safni
Umfjöllun/ Shól