spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflvíkingar sprungu út í fjórða leikhluta gegn Njarðvík

Keflvíkingar sprungu út í fjórða leikhluta gegn Njarðvík

Fyrstu umferð Subwaydeildar kvenna lauk á innansveitarkróniku Keflavíkur og Njarðvíkur í Blue-Höllinni í kvöld. Keflvíkingar unnu þar ákefðarsigur á Íslandsmeisturunum. Heimakonur mættu með öflugan og ákveðinn varnarleik frá upphafi til enda sem var munurinn á liðunum í kvöld, lokatölur 95-72 þar sem Keflvíkingar fóru á kostum í fjórða leikhluta.

Þrátt fyrir hljóðlata byrjun lauk Daniela Wallen leiknum stigahæst í liði Keflavíkur með 22 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Aliyah Collier var að sama skapi stigahæst hjá Njarðvík með 19 stig, 20 fráköst og 7 stoðsendingar.

Keflvíkingar mættu með myndarlegan ákafa í vörnina í upphafi leiks en eftir fyrsta leikhluta stóð allt jafnt, 16-16. Keflavík komst í 16-10 en Njarðvíkingar jöfnuðu metin í lok leikhlutans. Það var fimbulkuldi fyrir utan þriggja hjá báðum aðilum, 0-14 samtals í þristum eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Erna Hákonardóttir kveikti fyrsta þrist kvöldsins fyrir liðin og kom Njarðvík í 18-19. Fimmtánda tilraun í þristum hjá liðunum og þá fór hann loks niður. Raguel Laniero sást ekki hjá Njarðvík öðrum leikhluta þar sem hún fékk snemma þrjár villur, Keflvíkingar nýttu það vel og juku boltapressuna enn frekar.

Eftir flotta byrjun hjá Ólöfu í liði Keflavíkur tók Anna Ingunn við keflinu og Karina var sífellt ógnandi að keyra á körfuna, 9-10 í vítum í fyrri hálfleik. Hjá Njarðvík var Collier mest að ógna með 10 stig og 17 fráköst, tvenna í húsi í fyrri hálfleik. Keflvíkingar uppskáru fyrir erfiði sitt í vörninni og lokuðu fyrri hálfleik með 11-2 spretti og staðan því 42-34 í hálfleik.

Til að votta um ágæti varnarvinnu Keflvíkinga þá voru þeir með 8 stig eftir tapað bolta Njarðvíkinga en gestirnir höfðu ekki unnið sér inn nein slík fyrstu 20 mínútur leiksins.

Daniela Wallen mætti snemma síðari hálfleik með þrist og kom Keflavík í 47-34 en þá tóku Njarðvíkingar við sér og ruku inn í 13-0 áhlaup og jöfnuðu metin 47-47 eftir þrist frá Laviniu. Þriðji leikhluti var virkilega skemmtilegur, liðin tóku þrjár síðustu mínúturnar í að skiptast á forystunni en á sama tíma var Collier komin á bekkinn hjá Njarðvík með sína fjórðu villu. Það var svo Agnes María Svansdóttir sem kveikti í húsinu með flautuþrist fyrir Keflavík sem leiddu 62-58 fyrir fjórða leikhluta.

Framan af fjórða leikhluta var enn spenna í leiknum en Wallen skellti niður þrist fyrir Keflavík og kom þeim í 78-66, skömmu síðar fór Collier af velli hjá Njarðvík og þá héldu Keflvíkingum engin bönd sem unnu leikhlutann 33-14 og leikinn 95-72.

Vert að minnast á

Anna Ingunn og Agnes María áttu virkilega flottan leik hjá Keflavík og þá var Karina mjög beitt framan af ásamt Ólöfu. Varnarleikur Keflavíkur var þéttur og sá dropi holaði stein Njarðvíkinga. Hjá Njarðvík kom Erna flott inn af bekknum sem og Krista Gló.

Mætingin í Blue-Höllina var frábær í kvöld, lét nærri að það væri frekar úrslitakeppni heldur en fyrsta umferð. Frábær stemmning og ef þetta er það sem koma skal í leikjum liðanna þá ættu allir bara að leggjast á bæn og biðja um einvígi þessara liða í úrslitakeppninni.

Tölfræði leiks

Gangur leiks
10-10, 16-10, 16-16
20-19, 27-28, 42-34
47-34, 47-47, 62-58
69-66, 82-68, 95-72

Fréttir
- Auglýsing -