Keflvíkingar sigruðu Stjörnuna í kvöld á heimavelli sínum með 9 stigum, 83-74. Leikurinn var síðasti leikur annarrar umferðar Domino´s deildar karla í körfubolta og með sigrinum fór Keflavík á topp deildarinnar á meðan að Stjarnan þarf að sætta sig við að vera enn án stiga á botninum.
Leikurinn í kvöld hafði upp á margt að bjóða. Baráttu, spennu og almennt hreint ágætan körfubolta. Ef teknar eru frá allra síðustu mínúturnar og byrjun annars leikhluta, þá var í raun nánast ekkert sem að aðskildi liðin í leiknum. Liðin skiptust á að vera skrefi á undan hvoru öðru.
Keflavík átti þó tvær bestu atrennur leiksins. Eina í byrjun annars leikhluta þegar að þeir settu þrjár þriggja stiga körfur á einni mínútu án þess að Stjarnan næði að skora á milli og hina, með 11 stiga atrennu, þegar 3-4 mínútur voru eftir af leiknum.
Leikurinn í kvöld var fyrsti heimaleikur Keflavíkur tímabilsins. Því voru, eftir miklar hræringar á leikmannahópi þeirra í sumar, líklegast margir stuðningsmenn sem voru áhugasamir um að sjá þá 8 (af 12) leikmenn liðsins sem voru “nýjir” og ekki ullu þeir vonbrigðum. Skoruðu 48 af 83 stigum Keflavíkur í kvöld.
Hjá Keflavík ber helst að nefna nýjan útlending þeirra, William Graves sem skoraði 23 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, gamla brýnið Damon Johnson sem skoraði 20 stig og tók 4 fráköst og Val Orra Valsson sem skoraði 16 stig og gaf 8 stoðsendingar.
Stjörnumegin voru það Dagur Kár Jónsson sem átti hreint magnaðan leik með 29 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar, sem og setti Jarryd Frye 14 stig, tók 9 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
Hrafn Kristjánsson – þjálfari Stjörnunnar
Gunnar Einarsson – leikmaður Keflavíkur