spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflvíkingar ríghalda í toppsæti Subway deildarinnar - Hafa ekki tapað leik á...

Keflvíkingar ríghalda í toppsæti Subway deildarinnar – Hafa ekki tapað leik á heimavelli á tímabilinu

Keflavík lagði Breiðablik í Blue Höllinni í kvöld í 15. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að Breiðablik er í 5. sætinu með 16 stig. Keflvíkingar lengdu sigurhrinu sína á heimavelli í deildarkeppninni í 8 leiki, en þeir eiga enn eftir að tapa þar í vetur.

Fyrir leik

Breiðablik hafði sigur í fyrri deildarleik liðanna á tímabilinu þann 27. október í Smáranum, 97-82. Í þeim leik var Everage Lee Richardson bestur í liði Breiðabliks með 26 stig og 12 fráköst. Fyrir Keflavík var Eric Ayala atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst.

Gangur leiks

Heimamenn í Keflavík léku á alls oddi í fyrsta leikhluta leiksins. Setja 38 stig á fyrstu 10 mínútunum og leiða með 13 að fyrsta fjórðung loknum, 38-25. Keflavík nær svo enn að bæta í í upphafi annars leikhlutans, fara með forskot sitt mest í 24 stig. Þá ranka Blikar við sér og ná á ótrúlega stuttum tíma aftur að skera forskotið niður í 7 stig, 54-47. Heimamenn klára hálfleikinn í framhaldi af nokkrum krafti og leiða með 12 þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 59-47.

Stigahæstir heimamanna í fyrri hálfleiknum voru David Okeke og Igor Maric, báðir með 13 stig á meðan að þeir Julio De Assis og Jeremy Smith voru báðir komnir með 11 stig fyrir Blika.

Aftur hótar Keflavík að stinga af í upphafi seinni hálfleiksins. Þar sem þeir ná aftur að byggja sér upp 24 stiga forystu, en með góðum lokamínútum þriðja fjórðungsins halda Blikar þessu nokkuð lifandi með því að koma muninum niður í aðeins 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 87-71.

Í upphafi fjórða leikhlutans gerir Keflavík endanlega útum leikinn. Ná að loka nánast öllu varnarlega og eru snöggir að keyra í bakið á Blikum. Þegar tæpar 5 mínútur eru eftir af leiknum leiða þeir með 24 stigum, 102-78. Eftirleikurinn var svo að er virtist auðveldur fyrir Keflavík, sem að lokum sigla einhverjum öruggasta sigurleik tímabilsins í höfn.

Atkvæðamestir

Fyrir Keflavík var David Okeke bestur í kvöld með 24 stig, 13 fráköst og Dominykas Milka bætti við 24 stigum og 10 fráköstum.

Fyrir Blika dró Jeremy Smith vagninn með 21 stigi, 7 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 9. febrúar, en þá fær Breiðablik lið ÍR í heimsókn í Smárann og Keflavík heimsækir Hauka í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -