13:37
{mosimage}
Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og marka þeir upphaf 15. umferðar í deildinni. Keflvíkingar sendu Isma´il Muhammad heim á dögunum og er ekki bandarískur leikmaður kominn til liðsins í hans stað. Keflvíkingar leika því kanalausir gegn Haukum að Ásvöllum í kvöld kl. 19:15.
,,Þetta mun reyna á karakterinn í liðinu,” sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, við Víkurfréttir. ,,Við lítum jákvætt á þetta og tökum bara einn leik fyrir í einu snúum bara dæminu okkur í hag,” sagði Sigurður sem er þessa dagana að skoða erlenda leikmenn en Bandaríkjamaður ætti að vera kominn í raðir Keflvíkinga áður en langt um líður. ,,Það er ágætt fyrir strákana í liðinu að fara í leiki þar sem Keflavík er fyrirfram ekki talið sigurstranglegra liðið,” sagði Sigurður og átti þá við undanfarna leiki en óneitanlega eru Keflvíkingar sigurstranglegri þegar þeir mæta botnliði Hauka í kvöld.
Á Selfossi verður magnaður leikur þegar Hamar/Selfoss tekur á móti Skallagrím. H/S lagði Keflavík í undanúrslitum Lýsingarbikarsins um síðustu helgi og eru því fullir sjálfstrausts. Ærinn starfi bíður því Vals Ingimundarsonar og hans manna ætli þeir sér að ná tveimur stigum í land í Hveragerði.
Friðrik Ragnarsson hyggur á hefndir með Grindavíkurliðinu í kvöld þegar þeir gulu heimsækja ÍR í Seljaskóla. ÍR lagði Grindavík í undanúrslitum Lýsingarbikarsins um síðustu helgi í stórkostlegum leik sem var æsispennandi undir lokin en framlengja þurfti þann leik. Sá leikur var jafnframt sá fyrsti hjá Johnathan Griffin sem hafði aðeins verið á landinu í einn dag en sallaði engu að síður niður 28 stigum gegn ÍR.
Þór Þorlákshöfn tekur á móti Snæfell í Þorlákshöfn í kvöld. Þórsarar eru í botnsæti deildarinnar en Snæfell er í þriðja sæti. Þór leitast við að vænka stöðu sína í deildinni svo það verður ekkert gefið í Þorlákshöfn í kvöld
Allir leikir umferðarinnar hefjast kl. 19:15
Fimmtudagur: 1. feb:
Haukar-Keflavík
ÍR-Grindavík
Hamar/Selfoss-Skallagrímur
Þór Þorlákshöfn-Snæfell
Föstudagur 2. feb:
Njarðvík-Tindastóll
Fjölnir-KR