spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflvíkingar halda í efsta sæti Subway deildarinnar - David Okeke borinn af...

Keflvíkingar halda í efsta sæti Subway deildarinnar – David Okeke borinn af velli

Keflavík lagði Tindastól í kvöld í 9. umferð Subway deildar karla, 93-84. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Tindastóll er í 4. sætinu með 12 stig.

Gangur leiks

Heimamenn í Keflavík mættu brjálaðir til leiks í kvöld. Hefja leikinn á rosalegu 19-2 áhlaupi á fyrstu fjórum mínútunum. Tindastóll virðist ná einhverjum áttum eftir það eftir að hafa hreyft aðeins í liði sínu á vellinum. Munurinn samt 17 stig eftir fyrsta leikhluta, 29-12. Í öðrum leikhlutanum mæta Stólarnir svo miklu áræðnari til leiks. Ná að hlaða í gott áhlaup og komast 7 stigum næst heimamönnum. Nær komast þeir ekki, en Keflavík er með 13 stiga forystu þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-28.

Dominykas Milka var bestur fyrir heimamenn í þessum fyrri hálfleik með 10 stig, 10 fráköst og þá bætti Jaka Brodnik við 12 stigum og 4 fráköstum.

Fyrir lánlausa gestina var Sigtryggur Arnar Björnsson bestur með 10 stig og Pétur Rúnar Birgisson var með 6 stig og 3 stoðsendingar.

Keflvíkingar hefja seinni hálfleikinn svo á að auka enn við forystu sína. Vinna þriðja leikhlutann 24-19 og eru því komnir 18 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 75-57. Undir lok fjórða leikhlutans gera gestirnir heiðarlega tilraun til þess að gera þetta að leik, munurinn minnst 8 stig þegar um tvær mínútur eru eftir, 85-77. Nær komast þeir ekki, Keflavík sigrar að lokum með 9 stigum, 93-84.

Meiddur

Lykilleikmaður Keflavíkur í leiknum og í vetur David Okeke meiddist þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum og þurftu sjúkraflutningamenn að bera hann úr húsinu. Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hversu alvarleg meiðslin voru, en þjálfari Keflavíkur var ekki bjartsýnn eftir leikinn og talaði um að mögulega væri um hásinarmeiðsl að ræða.

Kjarninn

Stólarnir voru bara ekki klárir í kvöld. Leyfa Keflavík að spila á sínum styrkleikum, stjórna hraða leiksins og taka öll fráköstin. Réðu nákvæmlega ekkert við Dominykas Milka og David Okeke í teig Keflavíkur í kvöld á meðan að þeirra lykilmenn, Javon Bess og Taiwo Badmus voru afleitir.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var atkvæðamestur heimamanna í leiknum með 18 stig og 16 fráköst. Þá var CJ Burks með 22 stig og David Okeke 13 stig og 17 fráköst.

Fyrir Tindastól var Sigtryggur Arnar Björnsson atkvæðamestur með 24 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst komandi mánudag 13. desember heima gegn Haukum í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar. Tindastóll eru dottnir út úr þeirri keppni og eiga því leik næst á fimmtudaginn, 16. desember, heima í Síkinu gegn Þór.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -