Um leikinn:
Ósigraðir Keflvíkingar mættu í Garðabæinn í kvöld. Leikurinn fór rólega af stað og var skrítið andrúmsloft í húsinu. Þokkaleg mæting en lítið um stuðning eða fögnuð þegar við átti. Það lifnaði aðeins yfir leiknum í seinni hálfleik en samt vantaði mikið upp á. Það leit ekkert út fyrir að mikið væri undir í leiknum. Keflvíkingar léku heilt yfir betur í leiknum og verðskulduðu sigurinn. Haft var orð á því að leikurinn væri mögulega of seint á föstudagskvöldi og kannski mikið til í því fáir Keflvíkingar voru í húsinu og ekki heyrðist mikið í stuðningsmönnum heimamanna.
Gangur leiks:
Keflavík leiddi með átta stigum í hálfleik. Dominykas Milka var besti maður vallarins í hálfleiknum og Khalil kom fast á hæla hans, 2 af 6 af vítalínunni skyggði aðeins á frábæran hálfleik hjá Khalil. Frammistaðan hjá heimamönnum var frekar jöfn en Jamal, Kyle og Nick drógu vagninn í stigaskorun. Hörður og Ægir voru stigalausir í fyrri.
Keflavík sigraði þriðja leikhlutann og leiddi með ellefu stigum fyrir fjórða fjórðung. Keflvíkingar litu út fyrir að vera búnir að klára leikinn þegar forskotið var orðið fjórtán stig og skammt eftir. Stjarnan setti leikinn í uppnám með pressu og svo gott sem allt gekk upp á tveggja mínútna kafla og Keflavík leiddi einungis með þremur stigum á þeim tímapunkti. Hjalti tók leikhlé og gestirnir kláruðu leikinn af fagmennsku, tólf stiga sigur.
Vendipunkturinn:
Keflavík fór á 15-1 sprett undir lok annars fjórðungs og komu sér í forystu fyrir leikhlé. Stjarnan kom til baka í restina á leiknum en ætli leikhlé Hjalta þegar rúm mínútu lifði leiks og yfirvegunin í restina hafi ekki vegið þyngst.
Hetjan: Dominykas Milka
Gersamlega frábær í kvöld Milka. 31 stig, fimmtán fráköst og 37 í heildarframlag. Milka varði svo á lokamínútunum sniðskot frá Ægi sem tryggði svo gott sem sigurinn. Deane og Khalil skiluðu einnig stigum á töfluna og Hörður átti ellefu stoðsendingar ásamt níu stigum.
Tölfræðin lýgur ekki:
Keflavík vann frákasta baráttuna sannfærandi. Þriggja stiga nýting liðanna var ekki upp á marga fiska en þó töluvert skárri hjá gestunum. Keflvíkingar voru 6 af 21 á meðan heimamenn settu einungis 5 niður af 29. Þar af var Nikolas Tomsick 0 af 9 í þristum.
Hingað og ekki lengra:
Ægir Þór Steinarsson tók mikinn sprett eins og hann er vanur í átt að körfunni og ætlaði að setja þriðja sniðskotið í röð niður. Milka var mættur í þetta skiptið og sagði hingað og ekki lengra með því að verja skotið í innkast.
Ekkert gefið eftir – Mögulega of langt gengið?:
Khalil ætlaði að troða þegar lítið var eftir en Kyle var ekki á þeim buxunum að gefa tvö stigin eftir og braut harkalega á Khalil og uppskar ásetningsvillu. Khalil gerði vel að halda haus að vaða ekki í Kyle fyrir brotið.
Tvö höfuðhögg:
Í seinni hálfleik fengu Ægir Þór Steinarsson og Reggie Dupree sitthvort höfuðhöggið. Báðir sneru þeir inn á völlinn seinna í leiknum. Reggie fékk gat á hausinn og lék síðustu mínúturnar með vafning um höfuðið.
Lítið kom frá bekknum:
Bekkurinn hjá Keflavík skilaði fjórum punktum og samtals einum í heildarframlag.
Viðtöl eftir leik: