18:20
{mosimage}
Síðasta bikarúrslitaleiknum í DHL-Höllinni í Vesturbænum var að ljúka þar sem Keflvíkingar tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í drengjaflokki eftir góðann 67-55 sigur á FSu. Þröstur Leó Jóhannsson var allt í öllu hjá Keflvíkingum enda var hann valinn besti maður leiksins þar sem hann gerði 26 stig, tók 8 fráköst, varði 5 skot, stal 4 boltum og gaf 2 stoðsendingar. Þessi bikartitill drengjaflokks hjá Keflavík var eini bikartitillinn sem Suðurnesjamenn náðu að vinna sér inn þetta árið.
Leikurinn á millum Keflavíkur og FSu fór fjörlega af stað en Keflavík leiddi 11-13 að loknum fyrsta leikhluta og var lítið skorað þar sem varnir beggja liða voru mjög þéttar.
Varnirnar voru áfram sterkar í 2. leikhluta en FSu leiddi í hálfleik 22-25. Í síðari hálfleik sóttu Keflvíkingar í sig veðrið, jöfnuðu metin og komust yfir og þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta brunaði Þröstur Leó Jóhannsson upp völlinn og skaut boltanum frá miðjum velli um leið og flautan gall. Ótrúlegt en satt fór skotið ofan í og Keflvíkingar fögnuðu þessu ótrúlega skoti rétt eins og þeir hefðu unnið leikinn.
Þetta ævintýraskot frá Þresti var gríðarlega mikilvægt veganesti fyrir Keflavík inn í fjórða leikhlutann en þar voru Keflvíkingar allsráðandi og hleyptu FSu ekki nærri sér og héldu um 10 stiga mun á milli liðanna allt þar til leiktíminn var úti. Lokatölur 67-55 eins og áður greinir og fögnuðu Keflvíkingar sigrinum vel og innilega og settu upp derhúfur merktar: ,,Drengjaflokkur bikarmeistarar 2007” og ljóst að það kom aldrei neitt annað en sigur til greina hjá Keflvíkingum í dag.
Hannes Jónsson, formaður KKÍ, sagði að helgin hefði heppnast einstaklega vel og að körfuknattleiksdeild KR ætti heiður skilinn fyrir frábæra umgjörð. ,,Þetta hefur allt gengið snuðrulaust fyrir sig, umgjörðin hefur verið frábær og gaman að sjá hversu margir hafa lagt leið sína í DHL-Höllina um helgina og það er alveg ljóst að körfuboltinn er í stórsókn á Íslandi um þessar mundir. Margir hörkuskemmtilegir leikir fóru fram um helgina og hér fengum við að sjá gæðabolta hjá efnilegum spilurum,” sagði Hannes.
Bikarhelginni er nú lokið og rak hver stórleikurinn annan en KR-ingar voru vel tækjum búnir, tóku upp alla leiki og hafa fært þá yfir á DVD diska. Þeir sem hafa hug á því að kaupa einstaka leiki geta haft samband á netfangið [email protected]
Frétt og myndir af www.vf.is
{mosimage}