Þótt staða Grindavíkur og Keflavíkur sé ólík þar sem Keflavíkurstúlkur eru ósigraðar á toppi Domino´sdeildarinnar og Grindavík með 4 stig í í 7.sæti, þá bjuggust allir við hörkuleik i kvöld enda verið mikill stígandi í leik Grindavíkurstúlkna í síðustu leikjum.
Grindavíkurstúlkur byrjuðu leikinn betur og eftir rúmar tvær mínútur var staðan 8-0 fyrir Grindavík en Keflavík var ekki lengi að snúa þessu við. Pálína Gunnlaugsdóttir skorar þriggja stiga körfu þegar leikhlutinn er hálfnaður og kemur Keflavík þá yfir 8-9. Eftir þetta var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að leiða og í lok 1.leikhluta var staðan 16-15 fyrir Grindavík.
Sama spennan var uppi í 2. leikhluta þar sem mesti munurinn á liðunum var þrjú stig og í hálfleik var staðan 33-32 fyrir Grindavík.
Hjá Grindavík var Crystal Smith og Berglind Anna Magnúsdóttir með 8 stig og Helga Rut Hallgrímsdóttir með 6 stig og 9 fráköst (5 í sókn).
Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir með 7 stig, Birna Valgarðsdóttir með 6 stig, Sara Rún Hinriksdóttir með 5 stig og 6 fráköst og Bryndís Guðmundsdóttir með 5 stig.
Þriðji leikhluti hefst líkt og sá fyrri endaði, liðin skiptast á að skora, hátt spennustig, hraður leikur og leikmenn spiluðu mjög líkamlega og ákveðna vörn. Um miðjan leikhlutan er staðan 40-41 fyrir Keflavík og það má segja að á þessum tímapunkti hafi leikurinn snúist. Keflavíkurstelpur setja í lás í vörninni og á næstu 5 mínútum skorar Keflavík 12 stig á móti 4 hjá Grindavík. Staðan í lok 3. leikhluta var því 44-53 fyrir Keflavík.
Grindavíkurstúlkur byrjuðu 4. leikhluta af miklum krafti og voru ekki tilbúnar til að gefast upp. Á tveimur mínútunum tókst þeim að minnka muninn í tvö stig, 53-55. Næstu mínúturnar hélst munurinn í 2-5 stigum en þegar um 4 mínútur voru eftir að leiknum setur Pálína niður mikilvægan þrist og kemur Keflavík í 55-63. Eftir það varð róðurinn þungur hjá Grindavík og þrátt fyrir hetjulega baráttu við að reyna að jafna leikinn þá komust þær ekki nær og endaði leikurinn með 6 stiga sigri Keflavíkur, 65-71.
Hjá Keflavík var Jessica Ann Jenkins stigahæst með 16 stig, Birna Valgarðsdóttir með 14 stig, 9 fráköst og 6 villur fiskaðar, Pálína Gunnlaugsdóttir með 14 stig og 5 stolna og Bryndís Guðmundsdóttir með 13 stig.
Hjá Grindavík var Crystal Smith með 20 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar, Berglind Anna Magnúsdóttir með 14 stig, Jóhanna Rún Styrmisdóttir með 10 stig og Helga Rut Hallgrímsdóttir með 8 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.
Mynd úr safni/Heiða
Umfjöllun/ BG